Viðskipti innlent

Seðlabankinn svarar ekki efnahags- og viðskiptaráðuneyti

„Í tilefni af þessari fyrirspurn óskaði ráðuneytið eftir umsögn Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitsins. Svar ráðuneytisins er byggt á svari Fjármálaeftirlitsins þar sem Seðlabanki Íslands hefur enn ekki svarað ráðuneytinu þrátt fyrir töluverða eftirleitan," segir í svari Gylfa Magnússonar efnahags- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ásbjörns Óttarssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins á Alþingi um aðgerðir vegna meintra brota á gjaldeyrisreglum.

Fyrirspurn Ásbjörn var í tveimur liðum. Annarsvegar um aðgerðir sem gripið hefur verið til af hálfu stjórnvalda vegna meintra brota á gjaldeyrisreglum og hinsvegar um hvað unnt sé að gera til að koma í veg fyrir frekari brot.

Í svarinu segir að Fjármálaeftirlitið og Seðlabanki Íslands hafi gert með sér samstarfssamning um samvinnu vegna grunsemda um brot gegn lögum um gjaldeyrsimál og reglum settum á grundvelli þeirra. Með honum leitast stofnanirnar við að skýra verksvið sitt sem mest og koma til móts við hvor aðra varðandi aðstoð og nýtingu sérfræðiaðstoðar. Fjármálaeftirlitið er einnig í góðu samstarfi við efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra vegna rannsókna á meintum brotum.

Stofnuð hefur verið sérstök deild í Seðlabankanum til að fylgjast með reglum um gjaldeyrismál, svokallað gjaldeyriseftirlit, og ræður sú deild yfir þremur til fjórum starfsmönnum.

Seðlabanki Íslands hefur tilkynnt Fjármálaeftirlitinu um meint brot 28 lögaðila. Fjármálaeftirlitinu ber að kæra meiri háttar mál til lögreglu samkvæmt lögum um gjaldeyrismál en minni háttar málum lýkur stofnunin með álagningu stjórnvaldssekta eða gerð sátta.

Reynslan hér og í öðrum löndum sýnir að mikilvægt er að reglur um gjaldeyrismál séu í stöðugri endurskoðun þegar jafnvíðtækar hömlur eru á slíkri starfsemi eins og raunin er hér á landi. Til að koma í veg fyrir brot á gjaldeyrisreglum er því mikilvægt að til staðar sé öflugt eftirlit og að reglur um gjaldeyrismál séu bæði sveigjanlegar og auðveldar í framkvæmd.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×