Lífið

Tónleikar Megasar: þrjár stjörnur

Megas lék úrval af lögum sínum í Háskólabíói á mánudagskvöld. Alls stigu tæplega 30 hljóðfæraleikarar og söngvarar á svið með honum. Hér syngur Ágústa Eva Erlendsdóttir með Megasi. Fréttablaðið/Stefán
Megas lék úrval af lögum sínum í Háskólabíói á mánudagskvöld. Alls stigu tæplega 30 hljóðfæraleikarar og söngvarar á svið með honum. Hér syngur Ágústa Eva Erlendsdóttir með Megasi. Fréttablaðið/Stefán
Gömul lög í nýjum klæðum

Tónleikar ***

Megas

Aðför að lögum

Háskólabíó 24. maí á Listahátíð í Reykjavík

Tónleikar Megasar í Háskólabíói á mánudagskvöldið voru hans fyrstu á Listahátíð í Reykjavík. Undanfarin ár hafa popptónlistarmenn notfært sér tónleika sína á hátíðinni til að gera eitthvað öðruvísi og tónleikar Megasar voru engin undantekning þar á.

Eins og yfirskrift tónleikanna, Aðför að lögum, gaf fyrirheit um voru útsetningarnar margar mikið breyttar og lagalistinn samanstóð aðallega af minna þekktum lögum frá ferli Megasar. Tónleikarnir stóðu í þrjá klukkutíma og tæplega 30 hljóðfæraleikarar og söngvarar komu við sögu.

Dagskránni var skipt í afmarkaða kafla sem voru mjög ólíkir innbyrðis. Þeir hófust af krafti með háværri rokkkeyrslu. Fyrst kom Skutullinn af fyrstu plötu Megasar, svo kom Ég get líka af Þrem blóðdropum og svo hvert lagið á fætur öðru. Þegar röðin kom að Pækluðum plómum var rafmagnshljóðfærunum skipt út fyrir kontrabassa og kassagítara og fiðluleikari bættist í hópinn. Sú skipan hélst í nokkur lög og endaði á hápunkti með sérstaklega vel heppnaðri útgáfu af laginu Þyrnirós sem Megas og Ágústa Eva Erlendsdóttir sungu saman.

Þá var skipt út og upp á svið komu Karítur Íslands, 13 stúlkna kór, ásamt hörpuleikara og selló-leikara. Kórinn söng ein fimm lög og gerði vel. Í byrjun virtist sem Megas ætlaði að sitja hjá í þessum hluta tónleikanna, en svo heyrðist til hans söngla með og ef vel var að gáð mátti sjá glitta í hann fyrir aftan kórinn. Mjög kómísk uppstilling.

Eftir hlé var röðin komin að stengjakvintett sem flutti nýjar útsetningar Þórðar Magnússonar, sonar Megasar, en Megas söng. Þau tóku m.a. Gamla sorrí Grána, Enn (að minnsta kosti) og Jólanáttburð sem inn í var skotið melódíunni úr Vögguvísu á 12. hæð. Skemmtilegar útsetningar. Næst kom kórinn aftur á svið og tók tvö lög með strengjakvintettinum, Silfurskotturnar sungu fyrir mig og Tvær stjörnur. Útsetningin á því síðarnefnda var mjög látlaus og einföld, ólíkt mörgu af því sem á undan kom, en sérstaklega falleg, fyrsta gæsahúð kvöldsins.

Næst kom rokkhljómsveitin aftur á svið og tók nokkur lög órafmagnað, m.a. Tímann og Útumholtoghólablús, en svo voru rafmagnshljóðfærin tengd og krafturinn aukinn í síðustu lögunum. Tónleikunum lauk með frábærri útgáfu af Hvellgeira af Drögum af sjálfsmorði. Gæsahúð númer tvö.

Allt í allt voru þetta þrír klukkutímar og 30 lög. Og hvernig tókst svo til?

Það er alltaf spennandi að heyra nýjar útsetningar og gaman þegar mikið er lagt í hlutina. Það skapaði samt svolítinn losarabrag að hafa svona ólíkar útsetningar á einum og sömu tónleikunum. Útsetningarnar sjálfar voru misvel heppnaðar og hljómburðurinn var frekar slakur í kraftmestu köflunum, a.m.k. þar sem ég sat. Það var valinn maður í hverju rúmi, en það heyrðist að þetta var frumflutningur. Þarna var ekki á ferð hljómsveit sem var búin að spila til prógrammið. En það er jú eðli málsins samkvæmt.

Á heildina litið voru þetta ágætir tónleikar. Ég hef orðið fyrir sterkari upplifun á tónleikum hjá Megasi, en þessir voru áhugaverðir og á köflum stórskemmtilegir.

Trausti Júlíusson

Niðurstaða: Megas bauð upp á athyglisverða og margrétta tónlistarveislu í Háskólabíói á mánudagskvöldið.


Tengdar fréttir

Viðtal við Megas: Eins og hver annar iðnaðarmaður

Tónleikar Megasar í Háskólabíói eru stærsta innlenda atriðið á Listahátíð í ár. Megas ræddi við Kolbein Óttarsson Proppé um tónleikana, tíundastökk og lögin sem koma úr djúpinu og eru honum vörn gegn krabbameini í hugsun en verða svo öðrum brúkshlutir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.