Skoðun

Skipulag Laugavegar

Kæri Reykvíkingur

Ástæða þess að ég skrifa þetta er sú að eftir nýafstaðnar sveitastjórnarkosningar hefur verið myndaður meirihluti í borginni sem lýsir sig reiðubúinn til þess að hlusta á hugmyndir hins almenna borgara. Það sem ég vil gera hér að umtalsefni er hugmynd að framtíðarskipulagi Laugavegs þar sem sjónarmið húsafriðunar og núverandi nýtingar haldast í hendur við að gera götuna aðlaðandi fyrir þá sem um hana fara.

Laugavegurinn er í huga Reykvíkinga á mínum aldri og þeim sem eldri eru n.k. samnefnari fyrir íbúa höfuðborgarinnar. Hvert hús sem við götuna stendur hefur að geyma sögu samfélags íbúa auk þess að vera þungamiðja verslunar og viðskipta frá stríðslokum til þúsaldarmóta.

Saga Laugavegarins byrjar neðst í Bankastræti, eða Bakarabrekku sem þá var kölluð. Hér myndaðist stígur frá brúnni yfir lækinn upp brekkuna í austurátt. Eftir því sem byggðin óx í austurátt lengdist stígurinn og þegar umferð um Arnarhólstraðir lagðist af, varð stígurinn helsta samgönguleiðin austur úr bænum. Byggð óx meðfram stígnum en elsta húsið við Laugaveg númer eitt var reist árið 1848. Það var svo árið 1885 að gatan fékk nafnið Laugavegur með samþykkt bæjarstjórnar um gatnagerð austur að þvottalaugum í Laugardal. Þannig hefur myndun Laugavegarins og húsa sem við hann standa haldist í hendur við vöxt Reykjavíkur í austurátt.

Hugmynd mín að framtíðarskipulagi Laugavegar er einmitt byggð á þessari þróunarsögu Reykjavíkur. Laugavegur ætti að vera einhverskonar þverskurður af sögu Reykjavíkur á tímabilinu 1848 til 2000 þar sem elstu húsin standa neðst við gatnamót Skólavörðustígs og yngstu húsin standa efst við Hlemm. Þarna á milli yrði húsum raðað í tímaröð, eða réttara sagt skipulagssvæði milli þvergatna væru helguð tímabilum í aldursröð frá vestri til austurs. Heildarskipulagið ætti að vera hugsað til frambúðar þannig að þegar hús sem nú standa á „vitlausum stað" í aldursröð verða úrelt eða þarfnast endurnýjunar, eins og t.d. Laugavegur 7 sem byggt var árið 1974, yrði endurbygging þeirra að falla að þeim byggingarstíl tímabilsins sem ríkir á því svæði.

Eitt þeirra vandamála sem ávallt hefur verið til staðar á Laugavegi er skuggamyndun húsaraðarinnar sunnan við götuna. Gerir þetta það að verkum að á stórum hlutum Laugavegar ríkir skuggi þrátt fyrir að sól sé á lofti þannig að erfitt er að koma við þjónustu sem byggir á útiveru, s.s. kaffi- og veitingasölu. Til þess að vinna gegn þessu mætti huga að því að opna svæði að götunni sem nú eru baklóðir norðanmegin við götuna með því að „flytja" húsin sem standa við götuna norðanmegin inná baklóðirnar. Með þessu myndu opnast torgsvæði þar sem sólar nýtur auk þess sem að húsalengja götunnar að norðanverðu myndi lengjast og veita þar með aukna vaxtarmöguleika í komandi framtíð.

Ragnar Ómarsson

Byggingafræðingur BFÍ

Starfar hjá Almennu verkfræðistofunni hf.




Skoðun

Sjá meira


×