Erlent

Segist vinna að breyttum starfsháttum

Barack Obama Vinsældir hans hafa dvínað verulega fyrsta árið.fréttablaðið/AP
Barack Obama Vinsældir hans hafa dvínað verulega fyrsta árið.fréttablaðið/AP

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, flutti í nótt sína fyrstu stefnuræðu síðan hann tók við forsetaembætti.

Samkvæmt talsmanni Hvíta hússins snerist boðskapur forsetans til þjóðarinnar einkum um tvennt: Annars vegar reyndi hann að fullvissa áhyggjufulla Bandaríkjamenn um að hann hafi fullan skilning á erfiðleikum þeirra og áhyggjum, en hins vegar reyndi hann að sannfæra fólk um að hann ynni hörðum höndum að því að breyta starfsháttum stjórnmálanna í Washington, jafnvel þótt hann þurfi til að byrja með að starfa sjálfur innan gamla fyrirkomulagsins.

Mikið er í húfi fyrir Obama, sem í upphafi naut mikils stuðnings almennings. Sá stuðningur hefur dvínað hratt eftir því sem fólk hefur farið að lengja eftir því að sjá efndir loforðanna.

Samkvæmt nýrri skoðanakönnun, sem fréttastöðin CNN birti í gær, telja til að mynda 54 prósent Bandaríkjamanna að efnahagsaðgerðir stjórnarinnar hafi fyrst og fremst komið auðmönnum til góða, en einungis fjórðungur telur að efnahagsaðgerðirnar hafi gagnast láglaunafólki.

Flutningur ræðunnar átti að hefjast klukkan níu að staðartíma í Washington, eða um tvöleytið í nótt að íslenskum tíma.- gb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×