Handbolti

Wilbek: Ekki komnir í EM-formið enn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ulrik Wilbek landsliðsþjálfari Dana.
Ulrik Wilbek landsliðsþjálfari Dana. Mynd/AFP
Ulrik Wilbek landsliðsþjálfari Dana var ekki algerlega sáttir við frammistöðu sinna manna á æfingamótinu í Danmörku um helgina.

Danir unnu alla þrjá leiki sína um helgina en lentu í vandræðum með Tékka í lokaleiknum í gær. Danir unnu leikinn, 29-25, eftir að hafa verið einu marki undir í hálfleik.

„Við erum ekki enn komnir á það stig sem við þurfum að vera á fyrir EM," sagði Wilbek en Danmörk og Ísland eru saman í riðli á EM í Austurríki og mætast þann 23. janúar í lokaumferð riðlakeppninnar.

„Við erum þó lengra komnir en við höfum áður verið á þessum stigi undirbúningsins fyrir stórmót í handbolta."

„Við höfum átt svolítið erfitt uppdráttar. Við erum með rétthenta skyttu í hægri skyttustöðunni og þar sem Kasper Söndergård (eini örvhenta skyttan í leikmannahópi Dana) endist ekki í 60 mínútur í átta leikjum í röð þurfum við að finna aðrar lausnir á því vandamáli."

Wilbek var þó ánægður með leikstjórnendur sína. „Það er frábær hraði í leik liðsins þegar að Thomas Mogensen er að spila. Bo Spellerberg er með frábæra sendingagetu og það getur svo ýmislegt gert þegar að Henrik Knudsen er að spila."

Leikirnir í Danmörku um helgina voru þeir síðustu sem Danir spila áður en EM hefst í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×