Innlent

Notkun amfetamíns langmest hér á landi

Í nýrri rannsókn sem kynnt var á samnorrænni ráðstefnu í Reykjavík í vikulokin kemur fram að í öllum Norðurlandaríkjunum finnst strákum nám síður áhugavert en stelpum.Fréttablaðið/Arnþór
Í nýrri rannsókn sem kynnt var á samnorrænni ráðstefnu í Reykjavík í vikulokin kemur fram að í öllum Norðurlandaríkjunum finnst strákum nám síður áhugavert en stelpum.Fréttablaðið/Arnþór

Tólf prósent íslenskra ungmenna, á aldrinum 16 til 19 ára, hafa prófað amfetamín einu sinni eða oftar. Ný rannsókn sem kynnt var á samnorrænu ráðstefnunni Æskan – rödd framtíðarinnar sem lauk í gær sýnir að Ísland sker sig verulega úr hvað þetta varðar.

Í öðru sæti, á eftir íslenskum ungmennum, eru Danir með 7,2 prósent og í þriðja sæti eru Færeyingar með 4,9 prósent. Þá hafa 2,6 prósent grænlenskra ungmenna prófað amfetamín, 2,1 prósent norskra, 1,8 prósent sænskra og 1,3 prósent finnskra ungmenna.

Eitt af helstu verkefnum Íslands á formennskuári í Norrænu ráðherranefndinni 2009 var framkvæmd samanburðarrannsóknar á högum, líðan og lífsstíl meðal norrænna ungmenna, en rannsóknin var gerð á öllum Norðurlöndunum, þar með talið í sjálfstjórnarríkjunum Færeyjum, Grænlandi og Álandseyjum.

Rannsóknin er afar viðamikil og nær til ótal þátta fleiri en vímuefnanotkunar, svo sem menntunar, notkunar upplýsingatækni, jafnréttismála, tómstunda- og íþróttaiðkunar, heilsufars og fleiri þátta. Rannsóknir og greining héldu utan um gerð rannsóknarinnar sem er sú fyrsta sinnar tegundar. Jón Sigfússon, framkvæmdastjóri Rannsókna og greiningar, segir gögnum hafa verið safnað í hverju landi fyrir sig. Í öllum löndum voru nemendur skóla beðnir að svara spurningalista í kennslustund. „Það hefur tekið okkur um tvö ár að vinna þetta verkefni á öllum Norðurlöndunum og má segja að skýrslan sem nú er kynnt sé bara sýnishorn af heildarniðurstöðum og til að vekja fólk til umhugsunar um þennan aldurshóp sem hvorki telst til barna né ungmenna,“ segir hann og segir að við taki frekari gagnaúrvinnsla hjá mennta- og rannsóknarstofnunum um Norðurlöndin öll.

Í vímuefnakafla rannsóknar­innar kemur líka fram að á Íslandi hafa fleiri ungmenni prófað marijúana en hass, 22,6 prósent á móti 16,6 prósentum hass. Á Grænlandi hafa 35,5 prósent ungmenna prófað hass, en 9,6 prósent marijúana og í Danmörku hafa 34,7 prósent prófað hass og 14,2 prósent marijúana. Í ljós kemur að grænlensk og dönsk ungmenni eru líklegust til að hafa drukkið sig full, einu sinni eða oftar, 96,2 þeirra grænlensku og 92,5 prósent þeirra dönsku. Hér var hlutfallið 73,8 prósent.

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×