Erlent

Frakkar bensínlausir í verkfallsaðgerðum

Verkföll og lokanir við olíuhreinsistöðvar og dreifingarmiðstöðvar eru hluti af viðamiklum mótmælum gegn áætlunum franskra stjórnvalda um að hækka eftirlaunaaldur í 62 ár.  Fréttablaðið/AP
Verkföll og lokanir við olíuhreinsistöðvar og dreifingarmiðstöðvar eru hluti af viðamiklum mótmælum gegn áætlunum franskra stjórnvalda um að hækka eftirlaunaaldur í 62 ár. Fréttablaðið/AP

PARÍS, AP Enn var þeim áformum ríkisstjórnar Nikolas Sarkozy, forseta Frakklands, að hækka eftirlaunaaldur úr sextíu árum í 62 ár mótmælt í gær þegar hundruð þúsunda streymdu út á götur í helstu borgum landsins. Einnig var mótmælt á laugardag og stendur til að halda mótmælum áfram á morgun, sem þá verða sjöttu stóru mótmælin á innan við mánuði í landinu.

Víðtæk verkföll stéttarfélaga hafa valdið því að margir ökumenn hafa átt í erfiðleikum með að nálgast bensín á ökutæki sín. Christine Lagarde, fjármálaráðherra Frakklands, gerði lítið úr ástandinu í gær en viðurkenndi þó að um 230 af 13.000 bensínstöðvum landsins væru eldsneytislausar.

Óttast var að víðtæk verkföll kynnu að hafa áhrif á flugumferð í Frakklandi í gær, en mótmælendur lokuðu eldneytisleiðum til helstu flugvalla landsins á laugardag. Dominique Bussereau, samgönguráðherra Frakklands, hélt því þó fram í gær að nægt eldsneyti væri til staðar fyrir flugvélar á Charles de Gaulle-flugvellinum. Áður höfðu starfsmenn þurft að bregða á það ráð að skipa nokkrum flugvélum að lenda ekki á flugvellinum nema um borð í þeim væri nægt eldsneyti til að komast heim á nýjan leik.

Kosið verður um þau áform að hækka eftirlaunaaldurinn í landinu á miðvikudag. Stjórnvöld segja nauðsynlegt að hækka eftirlaunaaldurinn vegna mikils halla á eftirlaunasjóðum landsins. Búist er við að franskir vörubílstjórar láti til sín taka í mótmælunum fyrr en síðar.

Samgönguráðherrann Bussereau sagðist í gær hafa litlar áhyggjur af þeirri þróun mála. „Við óttumst ekki vörubílstjórana,“ sagði Bussereau. kjartan@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×