Lífið

Quadruplos: fjórar stjörnur

Plata Quadruplos er samnefnd sveitinni. Hún er átta laga og kemur út í samstarfi Weirdcore og Brak Records.
Plata Quadruplos er samnefnd sveitinni. Hún er átta laga og kemur út í samstarfi Weirdcore og Brak Records.
Töff tryllingur

Tónlist ****

Quadruplos

Hljómsveitin Quadruplos er skipuð þeim Magnúsi Birki Skarphéðinssyni og Tómasi Þórarni Magnússyni. Magnús var m.a. í Mr. Silla & Mongoose og hefur búið til tónlist undir nafninu Magnoose, en Tómas hefur notað aukasjálfið Tomio Newmilk.

Hljómsveitin varð til fyrir nokkrum árum en lá í dvala þar til í haust að hún var endurvakin fyrir tónleika á Iceland Airwaves. Síðan hafa þeir Magnús og Tómas verið iðnir við kolann. Þeir áttu frábært lag á Weirdcore-safnplötunni sem kom út í desember síðastliðinn og nú hafa þeir sent frá sér sína fyrstu plötu samnefnda sveitinni. Hún er átta laga og kemur út í samstarfi Weirdcore og Brak Records.

Tónlist Quadruplos er hörð og kraftmikil teknótónlist. Það má greina áhrif í henni frá listamönnum eins og Aphex Twin eða hinum íslenska Biogen og í raun taka þeir félagar það sem þeim hentar úr danstónlist síðustu ára hvort sem það er teknó, breakbeat eða drum & bass og blanda því við sitt eigið og útkoman er fersk og orkurík. Þeir hafa mjög sterka tilfinningu fyrir framvindu og dýnamík og byggja lögin flott upp með stíganda og sviptingum á milli lágværari og rólegri kafla og háværari og ómstríðari kafla. Flest lögin ná hámarki í brjáluðum tryllingi. Þetta er auðvitað ekta klúbbatónlist, en hún virkar líka vel heima í stofu eða í bílnum. Bara muna að spila hátt!

Á heildina litið er þetta frábær plata. Áhugamenn um raftónlist ættu að tékka á henni, en líka allir sem hafa gaman af hávaða og tryllingi. Það er miklu meira rokk í Quadruplos heldur en flestum gítarsveitum í dag.

Trausti Júlíusson

Niðurstaða: Flottur hljómur, dýnamík og tryllingur einkenna þessa fyrstu plötu Quadruplos.

Hér á YouTube má fá smjörþefinn af plötunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.