Lífið

Íslensk matreiðsla í mikilli sókn

John Swarbrooke er hér ásamt starfsfólki Menntaskólans í Kópavogi. 
Fréttablaðið/Stefán
John Swarbrooke er hér ásamt starfsfólki Menntaskólans í Kópavogi. Fréttablaðið/Stefán

John Swarbrooke, prófessor í ferðamálafræðum við César Ritz College í Sviss, heimsótti Ísland fyrir stuttu og hélt hér fyrirlestur um ferðaiðnaðinn auk þess sem hann heimsótti nemendur og starfsfólk við Menntaskólann í Kópavogi, sem starfar náið með César Ritz. Swarbrooke hefur skrifað fjölda bóka um ferðaiðnaðinn sem þýddar hafa verið á yfir tíu tungumál.

„Ég heimsótti Ísland fyrst fyrir 37 árum og ferðaiðnaðurinn hér hefur breyst gríðarlega síðan þá. Samgöngur hafa breyst mikið síðustu árin en það sem mér finnst hafa tekið mestum framförum er matreiðslan. Áður þegar ég sótti landið heim borðaði ég úti af nauðsyn en í dag er það einstök lífsreynsla að snæða á íslenskum veitingastöðum, hráefnið er frábært og Íslendingar gætu notfært sér þessi sérkenni enn frekar við markaðssetningu á landinu," segir Swarbrooke.

Hrífst af íslandi John Swarbrooke, ferðamálaprófessor við César Ritz í Sviss, segist vera heillaður af íslenskum vetri. Mynd/Helgi Kristjánsson

Að sögn prófessorsins kemur það honum á óvart að ferðamannastraumur til landsins skuli enn vera í hámarki yfir sumartímann þar sem vetrarmánuðirnir hafi upp á margt að bjóða.

„Það er til dæmis kaldara í Sviss yfir veturinn heldur en á Íslandi, þess vegna ætti veður ekki að hafa mikil áhrif á straum ferðamanna hingað til lands á þessum árstíma. Hér er einnig nóg um að vera á veturnar, það er bara spurning um að markaðssetja landið rétt til að draga fólk að. Það er ekki nóg að kynna fyrirtæki og ferðamöguleika fyrir fólki þegar það er komið til landsins heldur þarf einnig að markaðssetja vöruna erlendis til að lokka ferðamenn til landsins."

Aðspurður segir Swarbrooke að Íslendingar ættu ekki einungis að einblína á þann fjölda ferðamanna sem kemur til landsins árlega, heldur eigi einnig að reyna að hámarka þjónustu við þá og auka þannig tekjurnar.

„Íslendingar ættu að reyna að nýta sér slæmt gengi krónunnar á meðan það varir, því nú er landið orðið viðráðanlegt fyrir fjölda fólks sem hafði áður ekki haft efni á að koma hingað." - sm








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.