Erlent

Konur sækja í auknum mæli í fjárhættuspil á netinu

Upp er komin ný kynslóð kvenna í Bretlandi sem er háð póker á netinu, sem hingað til hefur verið talinn höfða aðallega til karlmanna. Fíkn í fjárhættuspil á netinu er vaxandi vandamál í Bretlandi eins og víða í Evrópu. Konur sem ekki myndu láta sjá sig í reykfylltum bakherbergjum á spilaknæpum stunda póker á netinu og tapa stórum fjárhæðum í vernduðu umhverfi heima hjá sér, að því er breska dagblaðið The Guardian greinir frá í dag.

Bresk stjórnvöld áætla að það séu á bilinu 236 þúsund til 378 þúsund einstaklingar í Bretlandi sem glíma við spilafíkn, en Gamblers Anonymous, samtök áhugafólks um spilafíkn þar í landi, telja að talan sé nærri 600 þúsund.

Ríkisrekin heilsgæslustöð í Lundúnum sem aðstoðar spilafíkla eingöngu hefur nú sett upp sérstakt barnaverndarsvið með það fyrir augum að hvetja mæður með spilafíkn að leita sér aðstoðar, en spilafíkn foreldra bitnar oft verst á börnunum. Nú eru um 2000 síður á netinu sem bjóða upp á fjárhættuspil og margar þeirra notfæra sér að konum finnst öruggara og betra að spila heima með því að höfða sérstaklega til þeirra.

Hér á landi hafa Samtök áhugafólks um áfengisvandann, SÁÁ, aðstoðað einstaklinga með spilafíkn. Þeir sem vilja takast á við spilafíkn sína eiga kost á að sækja fundi í stuðningshópum sem koma saman vikulega undir stjórn ráðgjafa á Göngudeild SÁÁ í Reykjavík.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×