Innlent

Fjölskylduhjálpin opnar á Akureyri: Vonandi kemur enginn

Erla Hlynsdóttir skrifar
Gríðarlegur fjöldi sækir sér vikulega mataraðstoð hjá Fjölskylduhjálpinni í Reykjavík
Gríðarlegur fjöldi sækir sér vikulega mataraðstoð hjá Fjölskylduhjálpinni í Reykjavík
Fjölskylduhjálp Íslands opnar nýja starfsstöð á Akureyri um miðjan nóvember. Gerður Jónsdóttir verkefnisstjóri vonast til að sem fæstir mæti enda væri það til marks um að þörfin væri ekki til staðar. „Vonandi kemur enginn," segir hún.

Fjölskylduhjálpin hefur fengið húsnæði að Freyjunesi 4 á Akureyri og óskar eftir sjálfboðaliðum. „Ég er bara ein enn sem komið er," segir Gerður.

Þetta er fyrsta starfsstöð Fjölskylduhjálparinnar sem opnar utan höfuðborgarsvæðisins. Gerður segir ljóst að fátæktin sé mikil en ítrekar að þeir sem standa að hjálparstarfi á Akureyri hafi staðið sig vel. Þar starfa nú Mæðrastyrksnefnd, Hjálparstarf kirkjunnar og Rauði krossinn en Gerður býst við, því miður, að ekki sé vanþörf á Fjölskylduhjálpinni.

Stefnt er að því að úthluta matvælum vikulega, líkt og gert er í Reykjavík. Sjálfboðaliða vantar því til til að sjá um matarúthlutanirnar en á næstu dögum er einnig sár þörf á sjálfboðaliðum til að standsetja nýja húsnæðið.

Þeim sem vilja leggja Fjölskylduhjálpini á Akureyri lið er bent á að hafa samband við Gerði í síma 899-8392 eða 462-3669.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×