Viðskipti innlent

Iceland Express sér mikla möguleika í Winnipeg

Matthías Imsland forstjóri Iceland Express sér mikla möguleika á að auknum umsvifum á flugleið félagsins til Winnipeg í Kanada og það áður en félagið hefur flug þangað í sumar.

Þetta kemur fram í blaðinu Winnipeg Free Press sem birtir viðtal við Matthías. Þar kemur fram að Iceland Express mun hefja flug til og frá Winnipeg þann 5. júní og fljúga reglulega milli Winnipeg og London fram á haustið.

Matthías segir að markaður fyrir Iceland Express í Winnipeg sé þegar til staðar sökum hinna fjölmennu Íslendingabyggða sem eru í nágrenni borgarinnar. Sá markaður sé samt ekki nógu stór til að viðhalda flugi yfir vetrarmánuðina.

Það sem Matthías telur að verða framtíðarmarkaður fyrir Iceland Express er bygging Kanadíska Mannréttindasafnsins sem opna á árið 2012 og verður staðsett í Forks í nágrenni Winnipeg. Þar hefur Matthías í huga það sem gerðist í ferðamálum fyrir spænsku borgina Bilbao eftir að Guggenheim safnið þar var opnað árið 1997. Ferðamannastraumur til Bilboa jókst töluvert í framhaldinu.

„Það gæti orðið ört vaxandi ferðamannaiðnaður í Winnipeg," segir Matthías. „Við höfum á tilfinningunni að við getum selt mikið af flugmiðum milli Winnipeg og Evrópu. Þetta er langtímafjárfesting af okkar hálfu. Við viljum vera í forystunni."

Matthías var staddur í Winnipeg í vikunni og átti m.a. viðræður við Barry Rempel forstjóra flugmálastofnunnar Winnipeg (WAA). Rempel segir að traust Matthíasar á markaðinum í Winnipeg geti leitt til þessað borgin verði miðstöð flutninga á svæðinu. Meðal þess sem þeir ræddu um voru fraktflutningar milli Íslands og Manitoba.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×