Erlent

Talibanar vilja semja frið -Washington Post

Óli Tynes skrifar
Eru byssurnar að þagna?
Eru byssurnar að þagna?

Washington Post segist hafa fjölmarga heimildarmenn fyrir frétt sinni. Þeir hafa allir óskað nafnleyndar þar sem viðræðurnar eru leynilegar. Í síðustu viku sagði hinsvegar David Petraeus yfirhershöfðingi Bandaríkjanna í Afganistan að hátt settir leiðtogar talibana hafi leitað til æðstu manna í ríkisstjórn Afganistans um viðræður.

Einn heimildarmanna blaðsins orðaði það þannig að talibanar væru mjög, mjög alvarlegir í tilraunum til þess að finna leið út úr stríðinu.

Afganskir og arabiskir heimildarmenn segjast telja að fulltrúar talibana hafi nú í fyrsta skipti umboð frá klerkinum Mohammed Ómar æðsta leiðtoga þeirra.

Það er þó ekki eintómur friðarvilji sem ræður för hjá leiðtogum talibana. Einn heimildarmannanna sagði að þeir vissu að það væri verið að reyna að setja þá til hliðar. Ennþá öfgafyllri öfl innan þeirra eigin raða væru í sókn. Þeir séu því vissir um að þótt stríðsreksturinn gangi vel séu þeir í tapstöðu.

Framtil þessa hafa Ómar og félagar hans hafnað öllum viðræðum nema erlendar hersveitir fari fyrst úr landi.

Nú er hinsvegar byrjað að tala um yfirgripsmikla lausn sem felur meðal annars í sér að talibanar fái sæti í ríkisstjórn Afganistans og að bandarískir og NATO hermenn fari úr landi.

Ahmed Karzai forseti Afganistans hefur lengi lagt áherslu á að semja við talibana og búast má við að Bandaríkjamenn og aðrar NATO þjóðir tækju slíkri lausn fegins hendi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×