Erlent

Spenna eykst á ný vegna Falklandseyja

Óli Tynes skrifar
Frá Falklandseyjastríðinu 1982.
Frá Falklandseyjastríðinu 1982.

Argentinsk stjórnvöld tilkynntu í gær að öll skip sem sigldu frá Argentínu til Falklandseyja þyrftu sérstakt leyfi yfirvalda til ferðarinnar.

Ástæðan er sögð sú að skip sem lá í argentinskri höfn í síðustu viku var sagt eiga að flytja leiðslur til Falklandseyja þar sem bresk fyrirtæki eru að leita að olíu.

Argentínumenn gera ekki aðeins tilkall til eyjanna heldur einnig til allra verðmæta sem kunna að finnast á hafsbotni í kringum þær.

Bretar hafa ráðið Falklandseyjum síðan 1833. Argentínumenn kalla eyjarnar Las Malvinas og hafa frá upphafi gert tilkall til þeirra.

Bretland og Argentína háðu stutt en mannskætt stríð um eyjarnar árið 1982 eftir að Argentínumenn lögðu þær undir sig með hervaldi.

Ástæða innrásarinnar þá var sú að herforingjastjórnin í Argentínu átti mjög undir högg að sækja heimafyrir. Hershöfðingjarnir hugðust leysa þann vanda með því að sameina þjóðina í stríði.

Það tókst ágætlega því Argentínumenn fylltust þjóðarstolti og gleymdu öllum vandræðum heimafyrir.

En svo sendu Bretar flotadeild sem hrakti innrásarliðið frá eyjunum. Herforingjastjórnin féll skömmu síðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×