Skoðun

Tilgangur líknarfélaga og samtaka þeirra

Guðjón Sigurðsson skrifar

Í fréttum stöðvar 2 um helgina var ég spurður um tillögu MND félagsins sem var felld á aðalfundi Öryrkjabandalags Íslands 23. október sl.

Tillagan var á þessa leið:  "Stjórn MND félagsins leggur til að aðalfundur Öryrkjabandalags Íslands 23. október 2010, samþykki að ÖBÍ fresti greiðslum af lottó hagnaði til BRYNJU hússjóðs næstu 2 árin. Samsvarandi fjárhæð verði notuð til að styrkja verkefni sem ætlað er að lina þjáningar okkar minnstu bræðra og systra. T.d. til matargjafa, rekstur húsnæðis fyrir heimilislausa og styrkir til lyfjakaupa svo eitthvað sé nefnt. Nánari útfærsla verði í höndum framkvæmdastjórnar. Um leið og svokölluð velferðarstjórn verði hvött til að standa við skyldur sínar."

Með tillögunni vildum við reyna að vekja forystu þessarar „stofnunar" til lífsins og raunveruleikans í dag. Í vikunni á eftir var einmitt fjallað um á sjónvarpsstöðvunum tvö af þessum þremur atriðum sem við vildum, tímabundið, setja aukinn kraft í. Formaður ÖBÍ sagði tillöguna hafa verið fellda vegna þess að hún væri „ ekki viðeigandi og samræmdist ekki baráttumálum bandalagsins..." Ef lífskjör öryrkja og aðbúnaður kemur ÖBÍ ekki við þá spyr maður sig um tilgang og starf samtakana?

Er tilgangurinn að eiga aura á bankabókum, er tilgangurinn að vera á móti öllu, er ekki sama hverjir sitja í ríkisstjórn hverju sinni eða snýst þetta bara um að viðhalda sjálfum sér? Maður spyr sig allavega hvort þessi samtök séu þau réttu til að sinna bráðnauðsynlegri hagsmunabaráttu fyrir okkur. Vill maður tengja sig samtökum sem segja óviðeigandi að fjalla um kjör öryrkja. Við munum allavega hugsa okkar mál hjá MND félaginu hvað varðar aðild, eins og reyndar að öllum samtökum yfirleitt.

Ég vona að ÖBÍ og BRYNJU hússjóði ÖBÍ beri gæfa til að fara að vinna fyrir fátækt fólk í landinu með afgerandi hætti. Allskonar fyrir aumingja sagði Jón Gnarr og hefur átt við einhverja aðra en fólkið sem við berjumst fyrir. Það er fólk sem getur allt, fái það til þess aðstoð. Það borðar enginn ályktanir ÖBÍ um að stjórnvöld eigi að standa við sitt. Þangað til stjórnvöld standa við sitt verðum við öll að leggjast á árarnar, öryrkjar jafnt og fasteignaeigendur.

 




Skoðun

Sjá meira


×