Viðskipti innlent

Marel snýr tapi í hagnað í upphafi ársins

"Markaðsaðstæður eru að batna og tekjur hafa enn á ný aukist í samanburði við ársfjórðunginn á undan," segir Theo Hoen, forstjóri Marel
"Markaðsaðstæður eru að batna og tekjur hafa enn á ný aukist í samanburði við ársfjórðunginn á undan," segir Theo Hoen, forstjóri Marel
Hagnaður Marel eftir skatta var 5,6 milljónir evra, eða rúmlega 950 milljónir kr. á fyrsta ársfjórðungi ársins. Þetta er mun betri árangur en á sama tímabili í fyrra þegar 7,0 milljón evra tap var á rekstrinum.

Í tilkynningu um uppgjörið segir að tekjur á fyrsta ársfjórðungi 2010 námu 147,2 milljónum evra. Tekjur af kjarnastarfsemi voru 128,9 milljónir, sem er 24,9% aukning miðað við samatímabil árið áður.

Sjóðstreymi er sterkt og nettó vaxtaberandi skuldir eru 286 milljónir evra í lok fyrsta ársfjórðungs en þær voru 373 milljónir evra á sama tímabili í fyrra.

„Við erum mjög ánægð með afkomu fyrsta ársfjórðungs. Árið byrjaði vel hjá Marel. Markaðsaðstæður eru að batna og tekjur hafa enn á ný aukist í samanburði við ársfjórðunginn á undan," segir Theo Hoen, forstjóri Marel í tilkynningunni.

„Pantanabókin hefur styrkst og var fjöldi nýrra pantana hærri en fjöldi afgreiddra pantana fimmta ársfjórðunginn í röð. Við skilum nú meiri hagnaði og sterkara sjóðstreymi þökk sé þeim aðgerðum sem við höfum gripið til til að hagræða og skerpa á rekstri félagsins.

Samþætting Marel og Stork er farin að skila sér. Samþætting dreifikerfanna gengur samkvæmt áætlun og við erum komin með stöðugt framboð nýrra samþættaðra vara sem eru viðskiptavinum okkar mjög til hagsbóta og til þess fallin að styrkja markaðsstöðu fyrirtækisins. Í ljósi þess árangurs sem við höfum þegar náð horfi ég björtum augum til framtíðarinnar, ekki bara út þetta ár heldur einnig til lengri tíma litið."














Fleiri fréttir

Sjá meira


×