Viðskipti innlent

Áfram er mikil eftirspurn eftir leiguhúsnæði

Í febrúar síðastliðnum var alls 744 leigusamningum um íbúðarhúsnæði þinglýst sem er fækkun um tæplega 9% frá sama mánuði í fyrra þegar 815 leigusamningum var þinglýst. Eins og kunnugt er hefur sókn í leiguhúsnæði aukist gríðarlega í kjölfar bankahrunsins.

Í kjölfarið hefur leigumarkaður hér á landi gjörbreyst og fjöldi þeirra sem leigja frekar en að búa í eigin húsnæði stóraukist. Þessi þróun sést vel á gögnum Fasteignaskrár Íslands en fjöldi þinglýstra leigusamninga í febrúar í ár og í fyrra er meira en helmingi meiri en hann var að meðaltali síðustu 3 árin á undan.

Mikil umskipti hafa orðið á íbúðamarkaði hér á landi í kjölfar gjörbreytinga á efnahagsumhverfinu. Leigumarkaðurinn fer ekki varhluta af þessari þróun. Bæði hefur spurn eftir leiguhúsnæði stóraukist m.a. vegna vaxandi atvinnuleysis, kaupmáttarrýrnunar og lækkunar á húsnæðisverði en þessir þættir valda því að fólk vill frekar vera á leigumarkaði en að kaupa sér eigin húsnæði.

Framboðshliðin á leigumarkaði hefur einnig breyst mikið. Fjöldi þeirra íbúða sem upphaflega voru byggðar til sölu rötuðu inn á leigumarkaðinn samhliða því sem erlendir verkamenn sem voru á leigumarkaði hafa yfirgefið landið.

Leiguverð lækkaði mikið í kjölfar bankahrunsins en að sögn forsvarsmanna leigumiðlana hefur verðið hækkað á nýjan leik undanfarna mánuði þó að það hafi enn ekki náð sömu hæðum og fyrir bankahrunið.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×