Innlent

740 kíló af amfetamíni á ári

Þessu magni af fljótandi amfetamíni reyndu tvær konur að smygla til landsins í bensíntanki bifreiðar. Ari segir haldlagningu lögreglu afrek.
Mynd/Logreglan
Þessu magni af fljótandi amfetamíni reyndu tvær konur að smygla til landsins í bensíntanki bifreiðar. Ari segir haldlagningu lögreglu afrek. Mynd/Logreglan
Áætluð ársþörf amfetamíns á markaði hér á landi er um 740 kíló og götuverð þess tæpir fjórir milljarðar króna. Þetta segir Ari Matthíasson fyrrum framkvæmdastjóri hjá SÁÁ. Hann vann fyrr á þessu ári meistararitgerð í heilsuhagfræði þar sem hann birti niðurstöður rannsóknar sinnar á þjóðfélagslegri byrði af áfengis- og vímuefnaneyslu.

Ari byggir niðurstöðuna á fjölda fíkla háðum sterkum fíkniefnum sem komu inn á Vog 2008 og þeirri þumalputtareglu að fyrir hvern stórneytanda í meðferð séu tveir úti í samfélaginu. „Út frá því er hægt að áætla að ársþörfin sé á ofangreindum nótum,“ segir Ari en með stórneytanda er átt við einstakling sem notar eitt gramm efnis á dag.

Ari segir eðli málsins samkvæmt erfitt að áætla með nákvæmni hversu stór fíkniefnamarkaðurinn sé þar sem hann sé utan laga og reglu. „Á hinn bóginn er hægt að athuga hvað gerist þegar mikið magn efna er haldlagt á einu bretti. Það ætti vissulega að hafa mikil áhrif á verðmyndun á markaði. En það virðist ekki gerast. Stór haldlagning hefur lítil áhrif og í skamman tíma. Það þýðir að það berst mikið af efnum inn á markaðinn og hann er skilvirkur. Hann virðist hafa náð tiltekinni stærð og með því fer að skapast grundvöllur fyrir skipulagða glæpastarfsemi.“

Með þessu á Ari við að það krefjist mikillar skipulagningar að fjármagna stórar sendingar. Um sé að ræða staðgreiðsluviðskipti og fjársterkur aðili þarf því að leggja fram fé. Ef smyglið heppnast sé ávinningurinn mikill. Þetta séu forsendur skipulagðrar glæpastarfsemi.

Ari segir nýlega haldlagningu lögreglunnar á 20 lítrum af am-fetamínbasa afrek. Úr því hefði verið hægt að framleiða 264 kíló af amfetamíni. „Hefði þetta farið á markað hefði það skapað átök um framboð, verð og svæði. En gjaldeyrishöftin og öflug löggæsla ættu að leiða til þess að innflutningur fíkniefna verði erfiðari en áður.“

- jss



Fleiri fréttir

Sjá meira


×