Handbolti

Snorri: Alveg eins gott að mæta Frökkunum núna

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Snorri skorar gegn Norðmönnum í gær.
Snorri skorar gegn Norðmönnum í gær. Mynd/DIENER

Snorri Steinn Guðjónsson segir það alveg eins gott að mæta Frökkum næst á EM í handbolta í Austurríki.

Vísir hitti á Snorra á hóteli íslenska liðsins í dag og sagðist hann vera nokkuð hress, þrátt fyrir lélegan nætursvefn.

„Ég svaf ekki nógu vel í nótt,“ sagði hann. „Þetta er líka svo lélegt hótel,“ bætti hann við í kaldhæðnistón.

„En það var líka gott að vakna og hugsa til þess að við séum ekki að fara að spila um fimmta sætið eins og Danirnir.“

Eins og kunnugt er þá keppir Ísland við Frakkland í undanúrslitum Evrópumótsins en leikurinn fer fram á morgun.

„Það er allt í lagi að mæta Frökkunum núna. Ef við ætlum alla leið í þessu móti þarf að spila við Frakka og þá er alveg eins gott að gera það núna.“

„En Frakkar eru með lið í heimsklassa og voru fyrirfram sigurstranglegastir á þessu móti. Það verður auðviðtað rosalegt verkefni að mæta Frökkum í undanúrslitum stórmóts og við þurfum að eiga toppleik gegn þeim. En við hefðum líka þurft að eiga toppleik gegn Pólverjum.“

Ísland mætti Frakklandi í úrslitaleik Ólympíuleikanna í Peking og segir Snorri að strákarnir vilji að sjálfsögðu kvitta fyrir það tap.

„Úrslitaleikurinn var okkar lélegasti leikur í Peking og við lærðum mikið af honum. En við höfum unnið Frakka áður á stórmóti og getum gert það aftur.“

Rétt eins og Frakkar þá byrjaði íslenska liðið nokkuð rólega á þessu móti og gerði jafntefli við Serba og Austurríkismenn eins og frægt er. Síðan þá hefur liðið unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli.

„Við erum gríðarlega ánægðir með að hafa komið svo sterkir til baka eftir lélega byrjun. Við vorum svo sem ekkert að spila hræðilega en hefðum getað spilað betur.“

„Svo kom leikurinn gegn Dönum þar sem við spiluðum vel. Við höfum náð að fylgja því eftir í milliriðlinum og erum á frábæru róli.“

„Það er líka lítið sem ekkert um meiðsli og þó svo að menn séu vissulega þreyttir þá eru þeir ferskari en oft áður. Það hafa verið fleiri frídagar á þessu móti en á fyrri stórmótum. Þetta lítur því vel út fyrir morgundaginn.“

Frakkland og Pólland léku sína leiki í milliriðlinum í Innsbruck sem er í tæplega 500 kílómetra fjarlægð frá Vínarborg.

„Það er kostur að þurfa ekki að eyða frídeginum í ferðalag. Ég held að Frakkar verði þó klárir í slaginn á morgun. Þeir eiga nú möguleika að geta kallað sig heims-, Evrópu- og Ólympíumeistara og mig grunar að það sé þeirra markmið að ná því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×