Erlent

Læknar beita þroskahefta konu valdi

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Læknarnir óskuðu eftir því að konan færi í aðgerð með valdi. Mynd/ AFP.
Læknarnir óskuðu eftir því að konan færi í aðgerð með valdi. Mynd/ AFP.
Dómari í Bretlandi hefur úrskurðað að læknum verði heimilað að færa 55 ára gamla konu með valdi á spítala, til að gangast undir krabbameinsaðgerð.

Málið hefur vakið töluverðar deilur um siðferðileg og lagaleg álitaefni. Sérfræðingar spyrja sig hvort lögfræðingum og læknum eigi að vera heimilt að hundsa óskir sjúklinga og hvort það geti verið réttlætanlegt að beita afli eða þvingunum við læknismeðferð. Það voru læknar sem óskuðu eftir heimild frá dómaranum til þess að fá að neyða konuna, sem er þroskaheft, í aðgerðina. Dómarinn áleit að konan væri ófær um að taka rökréttar ákvarðanir varðandi aðgerðina.

Hagsmunasamtök fatlaðra segja að rétturinn til þess að neita meðferð sé einn af hornsteinum mannréttinda og siðferðis í lækningum. Hins vegar sé skyldan til að koma fólki til aðstoðar og lækna það, líka hornsteinn siðferðis í lækningum.

Ákvörðun dómarans þykir einstök og hann sagði opinberlega að hann hafi viljað gera opinbera úrskurð sinn ef það mætti verða til þess að setja fordæmi í svipuðum dómsmálum í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×