Viðskipti innlent

Stjórnvöld samþykkja „eðlileg“ vaxtakjör á Icesaveskuldinni

Íslensk stjórnvöld heita því í nýrri viljayfirlýsingu til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) að Bretum og Hollendingum verði að fullu endurgreiddur kostnaður vegna Icesave-reikninganna, auk „eðlilegra" vaxta.

Stjórn AGS samþykkti endurskoðaða efnahagsáætlun Íslands fyrir helgi. Við það tilefni gáfu íslensk stjórnvöld út viljayfirlýsingu þar sem árangri áætlunarinnar hingað til er lýst, sem og höfuðmarkmiðunum á næstunni.

Sérstakur liður er í viljayfirlýsingunni um Icesave. Þar er ítrekað að íslenska ríkið muni endurgreiða Bretlandi og Hollandi inneignir á Icesave-reikningum Landsbankans upp að lögbundnu hámarki.

Þar segir einnig að íslenska ríkið hafi fullvissað viðsemjendur sína um að þeir muni fá eðlilega vexti fyrir útgjöldum þeirra vegna málsins, takist að ná samkomulagi sem sé ásættanlegt fyrir alla aðila.

„Ísland er tilbúið til að ljúka við fyrsta tækifæri samningaviðræðum við ríkisstjórnir Bretlands og Hollands um lagalegar og fjárhagslegar skuldbindingar vegna þessa máls," segir í yfirlýsingunni.

Eins og fram kom í Fréttablaðinu nýverið féllst stjórn AGS ekki á að taka efnahagsáætlun Íslands til endurskoðunar fyrr en þessum ákvæðum var bætt inn í viljayfirlýsinguna.

Formlegar viðræður við bresk og hollensk stjórnvöld vegna Icesave hafa legið niðri að undanförnu.

- bj






Fleiri fréttir

Sjá meira


×