Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri: Möguleiki á nýrri efnahagsáætlun

Már Guðmundsson seðlabankastjóri segir að ef útlit er fyrir að Icesave deilan verði ekki leyst í bráð væri möguleiki á að koma nýrri efnahagsáætlun á fót. Þetta yrði þó ekki gert af Seðlabankanum einum saman heldur í samvinnu við stjórnvöld og fleiri aðila.

Þetta kom fram í máli seðlabankastjóra á fundi sem nú stendur í Seðlabankanum þar sem fjallað er um vaxtaákvörðun peningastefnunefndar sem kynnt var í morgun.

Már segir að sú óvissa sem hamlar því að stýrivextir séu lækkaðir mikið og gjaldeyrishöftin afnumin stafi fyrst og fremst af Icesave deilunni. Tvær leiðir séu til að eyða óvissunni, annaðhvort að Icesave leystist á næstu vikum eða að Icesave leysist ekki til lengri tíma litið.

Hvað varðar óleyst Icesave segir Már að ný efnahagsáætlun í þeirri stöðu yrði vonandi unnin í samvinnu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS). Samkvæmt henni yrði hægt að lækka stýrivexti mikið þar sem gjaldeyrishöftin yrðu viðvarandi næstu árin.

Hvað leiðina að Icesave deilan leysist og núverandi áætlun AGS haldi áfram segir Már að þá þyrfti að velja á milli lækkunnar stýrivaxta og afnáms gjaldeyrishafta. Hann segir það persónulegt álit sitt að leggja ætti meiri áherslu á að aflétta höftunum en lækka vextina.

Már segir að ef Icesave leysist ekki sé ljóst að gengið muni lækka og laun muni lækka. Meira aðhalds þurfi að gæta í peningastefnunni og í ríkisfjármálum. "Það verður ekki sársaukalaust," segir Már.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×