Viðskipti innlent

Sterkara gengi krónu gæti leitt til lægri stýrivaxta

Jón Bjarki Bentsson
Jón Bjarki Bentsson

Gengisvísitala krónunnar endaði í 231 stigi í gær og hefur krónan ekki verið sterkari gagnvart evru síðan seint í júlí í fyrra. Evran og erlendir gjaldmiðlar fasttengdir henni í Evrópu mynda í kringum helming gengisvísitölu krónunnar. Þar á meðal er danska krónan.

Jón Bjarki Bentsson, sérfræðingur hjá Greiningu Íslandsbanka, segir þetta jákvæðar fréttir, ekki síst þar sem vörur frá evrusvæðinu verði ódýrari en áður. Hann bendir á að almennt sé lítið að gerast á millibankamarkaði. Seðlabankinn, sem hafi keypt krónur fyrir um einn milljarð að jafnaði á mánuði í eitt ár eftir að gjaldeyrishöft voru sett í lok nóvember í hittifyrra, hafi haldið sig til hlés frá í nóvember í fyrra.

Seðlabankinn líti þróunina jákvæðum augum og ýti það undir frekari lækkun stýrivaxta, að mati Jóns. „Það er erfitt að spá fyrir um gjaldmiðla. En ég tel betri líkur á því nú en fyrir nokkrum mánuðum síðan að krónan muni standa af sér veturinn og þokast upp. Horfurnar eru ekki slæmar á næstunni," segir Jón Bjarki.

- jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×