Körfubolti

Mikill plús fyrir Snæfell að hafa fengið Jeb Ivey

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jeb Ivey í leiknum þegar hann varð Íslandsmeistari með Njarðvík árið 2006.
Jeb Ivey í leiknum þegar hann varð Íslandsmeistari með Njarðvík árið 2006.

Jeb Ivey hefur heldur betur komið sterkur inn í úrslitaeinvígið á móti Keflavík en Snæfellsliðið hefur unnið báða leikina síðan Ivey datt inn í hús rétt fyrir leik tvö. Snæfellingar geta tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Keflavík í Stykkishólmi í kvöld en leikurinn hefst klukkan 19.15 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Jeb Iver er hæstur í plús og mínus sem er nýr tölfræðiþáttur hjá KKÍ þar sem kemur fram hvernig liðinu gengur þegar leikmaðurinn er inn á vellinum. Snæfell hefur unnið þær 63 mínútur sem Jeb hefur spilað með 42 stiga mun.

Ivey er aðeins á undan Martins Berkis en Snæfell hefur unnið þær 86 mínútur sem hann hefur spilað með 34 stiga mun. Hæstu Keflvíkingarnir eru Draelon Burns, sem er meiddur, og svo fyrirliðinn Jón Norðdal Hafsteinsson en Keflavík hefur unnið með 13 stigum þær 54 mínútur sem hann hefur spilað.

Jeb Ivey hefur spilað samherja sína vel upp í þessum tveimur leikjum og hefur einbeitt sér að stjórna sóknarleiknum og spila góða vörn á Hörð Axel Vilhjálmsson, leikstjórnanda Keflavíkurliðsins.

Jeb Ivey er með 12,0 stig og 7,5 stoðsendingar að meðaltali á 31,5 mínútum en hann var með 11 stoðsendingar á móti aðeins einum töpuðum bolta í sigrinum í Keflavík í síðasta leik.

Hæsta plús og mínus í fyrstu þremur leikjum úrslitaeinvígis Keflavíkur og Snæfells:
Jeb Ivey, Snæfell +42
Martins Berkis, Snæfell +34
Draelon Burns, Keflavík +22
Sigurður Þorvaldsson, Snæfell +20
Hlynur Bæringsson, Snæfell +13
Jón Nordal Hafsteinsson, Keflavík +13
Pálmi Freyr Sigurgeirsson, Snæfell +7
Páll Fannar Helgason, Snæfell +7

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.