Erlent

Jakob eignast enn eitt barn

Óli Tynes skrifar
Jakob Zuma forseti Suður-Afríku.
Jakob Zuma forseti Suður-Afríku.

Jakob Zuma forseti Suður-Afríku er sagður hafa eignast sitt tuttugasta barn í október síðastliðnum. Móðirin er þrjátíu og níu ára gömul dóttir vinar forsetans.

Zuma er 67 ára gamall og sagður ágætlega kvenhollur. Hann hefur átt fimm eiginkonur og er kvæntur þrem konum í dag. Hann á einnig þónokkur börn utan hjónabands.

Suður-Afríska Sunday Times segir að fjölskylda hinnar nýju móður sé ekki sérlega ánægð. Faðir hennar er sex árum yngri en forsetinn.

Blaðið segir að sendimenn forsetans hafi heimsótt föðurinn til þess að ræða skaðabætur en slíkt er hefð meðal Zulu manna ef barn fæðist utan hjónabands.

Zuma heldur í fornar hefðir Zulu manna og í Suður-Afríku eru menn ekkert að gera veður útaf kvennamálum hans.

Hann þurfti hinsvegar að verja fjölkvæni sitt á Efnahagsráðstefnunni í Davos í síðustu viku. Það var sagt vera skref afturábak fyrir konur.

Zuma svaraði með því að segja að fólk túlki menningu á mismunandi hátt. Sumir telji sína menningu vera yfir aðra hafna. Það sé þekkt vandamál í heiminum. Í Suður-Afríku sé fylgt þeirri stefnu að bera virðingu fyrir menningu annarra. Það sé hans stefna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×