Erlent

Yfir 1800 manns látnir í Kirgistan

Frá Kirgistan
Frá Kirgistan Mynd/AFP
Yfir 1800 manns hafa fallið í Kirgistan síðustu daga, þetta kemur fram á vefsíðu rússnesku fréttastofunnar RIA-Novotsti. Haft er eftir ónefndum leyniþjónustumanni að ýmsar ástæður kunni að liggja að baki þess að yfirvöld í landinu gefi upp aðra tölu, sem er um það bil tíu sinnum lægri.

Samkvæmt siðum og venjum í landinu hafi margir jarðsett ættingja strax á fyrsta degi og þá hafi í sumum tilvikum heilu fjölskyldurnar verið drepnar svo enginn er til frásagnar.

Þá hafi starfsemi allra megin stofnana lamast eftir að átökin brutust út og enginn verið til staðar til að greina frá mannfallinu.

Ole Solvang, fulltrúi mannréttindasamtakanna Humar Rights Watch, segir að mikil spenna sé í borginni Osh, þar sem aðal átökin fara fram, þrátt fyrir að tekist hafi að stöðva átök milli Kirgista og Úsbeka.

Margir Úsbekar hafa flúið borgina og eru margir á götunni og sumir í bráðabirgðabúðum í suðurhluta landsins. Sumir hafa flúið til Úsbekistans.

Enn heyrast skothvellir frá borginni og segja sjónarvottar að ráðist hafi verið á Úsbeka sem ætluðu að heimsækja ættingja á sjúkrahúsi á svæði Kirgisa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×