Innlent

Skattalækkun örvi bílasölu

Bílgreinasambandið leggur til að tíu ára gamlir bílar verði afskrifaðir og eigendur þeirra fái á móti afslátt af innflutningsgjöldum á nýjum bíl. Sambandið vill sömuleiðis að innflutningsgjöld á nýjum bílum verði lækkuð. Markmiðið er að flýta fyrir endurnýjun bílaflotans og koma markaðnum á hreyfingu á ný eftir gífurlegan samdrátt í bílasölu eftir bankahrun.

Bílgreinasambandið lagði afskriftir á gömlum bílum til við fjármálaráðuneytið snemma árs 2009. Ástæðan var hrun í sölu nýrra bíla. Að mati sambandsins þarf að flytja inn milli 14 og 15 þúsund bíla á ári til að bílaflotinn verði ekki of gamall. Á þessu ári megi hins vegar gera ráð fyrir að einungis um 3.000 nýir bílar verði fluttir inn. Sverrir Viðar Hauksson, formaður Bílgreinasambandsins, segir að þegar meðalaldur bílaflotans hækki jafnmikið og gerst hefur undanfarið þýði það aukinn viðhaldskostnað fyrir eigendur auk þess sem eldri bílar mengi meira og séu óöruggari á vegunum. Sala nýrra bíla dróst saman um 95 prósent á árunum 2007 til 2009.

Fjármálaráðuneytið hefur að sögn Sverris frekar viljað fara þá leið að lækka innflutningsgjöld á bílum en hækka skatta á notkun. „Nú er búið að hækka eldsneytisskattana duglega en enn hafa innflutningsgjöldin ekki verið lækkuð," segir Sverrir. Hann segir frumvarp um lækkun innflutningsgjaldanna í smíðum og það fáist vonandi samþykkt á haustþingi og geti tekið gildi 1. janúar.

Bílgreinasambandið leggur einnig til að eigendur bíla geti fengið virðisaukaskatt á viðgerðum endurgreiddan, rétt eins og virðisaukaskattur vegna vinnu við framkvæmdir við íbúðarhús hefur verið endurgreiddur.

Sverrir segir viðgerðir á svörtum markaði hafa aukist mjög mikið undanfarið og nauðsynlegt sé fyrir ríkið að stíga þar inn. „Flestir þessir aðilar eru að sinna vinnu sinni við ófullnægjandi aðstæður og starfsemi þeirra er öll meira og minna óuppgefin til skatts," segir Sverrir. „Með því að útfæra hlutina til dæmis á þann veg að uppsafnaðir viðgerðarreikningar þurfi að ná ákveðinni upphæð til þess að möguleiki sé fyrir því að sækja um endurgreiðslu virðisaukaskatts, ætti þetta að geta komið sér vel fyrir alla aðila."

Ekki náðist í Steingrím J. Sigfússon fjármálaráðherra vegna málsins. - sv






Fleiri fréttir

Sjá meira


×