Viðskipti innlent

Ræða seðlabankastjóra vekur athygli erlendis

"Regluverk Evrópusambandsins um starfsemi banka yfir landamæri var stórgallað þar sem það heimilaði frjálst flæði fjármagns og bankaþjónustu með innlend öryggisnet og áfallastjórnun." Vefritið CentralBanking.com tekur upp þessi orð Más Guðmundssonar seðlabankastjóra í frétt, en þau viðhafði hann í Bergen í Noregi í janúarbyrjun.

Í ræðunni sagði Már að þörf væri á aukinni yfirstjórn á vettvangi Evrópusambandsins, auk þess sem huga þyrfti að innlánatryggingum, áfallastjórnun og ákvarðanaferli í dæmum banka sem störfuðu í fleiri en einu landi.

Már segir í ræðunni nýjar skýrslur þar sem lagðar eru til endurbætur í fjármálaumhverfi heimsins, svo sem þær sem kenndar eru við De Laosière og við Turner, gangi ekki nógu langt og myndu ekki nægja til að afstýra þeim vanda sem hér var uppi. Litið væri ranglega á vanda Íslands í því ljósi að eftirlitsstofnanir hafi brugðist, en það sé ekki nema að hluta rétt.

Már bendir líka í ræðunni á að fleiri hafi séð fyrir möguleikann á falli íslensku bankanna en marga gruni. Vísaði hann til eigin ræðu í maí 2007 sem finna megi á vef Alþjóðabankans í Basel (BIS). Þar segir hann að seðlabönkum kunni að reynast erfitt og jafnvel ómögulegt að reiða fram neyðarfjármagn handa alþjóðlegum bönkum og að Ísland væri dæmi um það. - óká










Fleiri fréttir

Sjá meira


×