Lífið

Fjármagnar plötu á netinu

Sunna notar síðuna Kickstarter.com til að fjármagna plötuna sína.
Sunna notar síðuna Kickstarter.com til að fjármagna plötuna sína.

„Í raun er ég að selja diskinn fyrirfram," segir djasspíanistinn Sunna Gunnlaugsdóttir sem notar síðuna Kickstarter.com til að fjármagna plötu sem hún hljóðritaði í New York í fyrra. Hún ætlar einnig að nota peningana í útvarpsherferð í Bandaríkjunum.

Á síðunni geta stuðningsmenn og tónlistarunnendur heitið vissum upphæðum á Sunnu og fengið fríðindi í staðinn, það er ef takmarkið næst að ná inn 2.500 dollurum fyrir 10. júní. Sunna hefur þegar náð inn rúmlega 60% fjármögnun og vantar bara herslumuninn.

„Ég var búin að melta þetta með mér í langan tíma. Ég hafði heyrt að fólk hefði verið að gera þetta en þetta er mun algengara í rokk, urban- og indítónlist," segir Sunna.

Á meðal fríðinda sem stuðningsmenn Sunnu geta fengið er frítt niðurhal á plötunni, áritað eintak, stuttermabolur og iPad Nano-spilari. Einnig getur fólk pantað hvaða lag sem er og fengið Sunnu til að taka það upp og senda viðkomandi. Það er dýrast og kostar 100 dollara. Ef fjármögnunin næst ekki að fullu fyrir 10. júní fá þeir sem hafa heitið á Sunnu peningana sína til baka.

Sunna er að leggja af stað í tónleikaferð um Bandaríkin. Þar stígur hún á svið með kvartetti sem hún spilaði með áður en hún flutti heim til Íslands eftir þrettán ára búsetu í Bandaríkjunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.