Erlent

Borgastríð í Bandaríkjunum

Óli Tynes skrifar
Los Angeles um nótt....eftir hefnd Arizona.
Los Angeles um nótt....eftir hefnd Arizona.

Mikil og heit umræða hefur orðið í Bandaríkjunum vegna nýrra og hertra innflytjendalaga sem hafa verið samþykkt í Arizona.

Lögin eru einkum sett til höfuðs ólöglegum innflytjendum frá Mexíkó sem lauma sér í stríðum straumi yfir landamærin til Arizona.

Þessi nýju lög þykja mjög ströng og fjölmörg mannréttindasamtök hafa mótmælt þeim.

Það hafa raunar fleiri gert, Barack Obama lét til dæmis kanna hvort alríkisstjórnin gæti gripið þar inní. Svo reyndist ekki vera.

Í Los Angeles ofbauð mönnum svo að borgarstjórnin hvatti til þess að Arizona yrði sett í viðskiptabann.

Einn af yfirmönnum orkuveitunnar í Arizona hefur sent bréf til Los Angeles af því tilefni.

Hann segir að ef borgin vilji í alvöru fara í viðskiptastríð sé hann alveg til í að leggja til við orkuveituna að lokað verði á Los Angeles.

Los Angeles fær 25 prósent orku sinnar frá Arizona.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×