Erlent

Falin myndavél yfir rúmi BBC stjörnu

Óli Tynes skrifar
„Aksjón“
„Aksjón“

Framleiðandi hjá BBC sjónvarpsstöðinni er á leið í fangelsi eftir að upp komst að hann hafði tekið hvílubrögð sín með meira en tugi sjónvarps- og útvarpskvenna upp á myndbönd.

Benjamín Wilkins sem er þrjátíu og sex ára gamall faldi upptökuvélina í reykskynjara yfir rúmi sínu. Þangað leiddi hann svo sjónvarpsþulur, fréttakonur og útvarpskonur hverja af annarri.

Upp komst um Wilkins þegar kærasta hans og barnsmóðir fann spólurnar í kassa uppi á háalofti. Á þeim voru yfir fimmtíu klukkustundir af efni af honum í rúminu með þessum konum.

Wilkins hefur unnið hjá BBC í mörg ár og unnið til fjölda verðlauna fyrir störf sín. Hann var talinn eiga bjarta framtíð fyrir sér hjá stofnuninni.

Samstarfsfólk hans er sem þrumu lostið. Einn þeirra sagði að Wilkins væri ekkert meiri kvennabósi en gengur og gerist hjá mönnum á hans aldri á fréttastofu.

Hann hafi ævinlega verið vingjarnlegur og sjarmerandi og ávallt sýnt öllu fólki fulla virðingu. Það hafi borið fullt traust til hans. Engum hafi dottið í hug að hann ætti sér þessa dökku hlið.

Tveggja ára fangelsi liggur við blygðunarbrotum af þessu tagi í Bretlandi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×