Lífið

Íslensk frumsýningarbomba: níu myndir á leiðinni

Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið er frumsýnd á morgun.
Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið er frumsýnd á morgun.

Haustið markar yfirleitt upphaf frumsýninga íslenskra kvikmynda. Þrír leikstjórar frumsýna sína fyrstu mynd í fullri lengd, þrjár kvikmyndir byggja á íslenskum skáldverkum og tvær á leikverkum eftir Jón Atla Jónasson.

Algjör Sveppi og dularfulla hótelherbergið ríður á vaðið en hún verður frumsýnd á morgun. Síðan kemur kolsvarta komedían Sumarlandið en hún er fyrsta kvikmynd Gríms Hákonarsonar í fullri lengd. Myndin verður frumsýnd í næstu viku.

Næsta frumsýning er síðan unglingamyndin Órói sem byggir á bókum Ingibjargar Reynisdóttur og er leikstýrt af Baldvini Z en stefnt er að frumsýningu 14. október. Brim, kvikmynd Árna Ólafs Ásgeirssonar með Vesturporti í helstu hlutverkum, verður væntanlega einnig frumsýnd í október en hún er gerð eftir leikverki Jóns Atla Jónassonar.

Reynir Lyngdal, Grímur Hákonarson og Baldvin Z frumsýna allir sína fyrstu mynd í fullri lengd í haust eða snemma á næsta ári.

Þá hefur verið staðfest að Gauragangur Gunnars Björns Guðmundssonar verði ein af jólamyndum þessa árs, frumsýnd á annan í jólum. Kurteist fólk Ólafs Jóhannessonar verður einnig frumsýnd um jólahátíðina ef marka má vefsíðu Poppola Pictures.

Þá er ekki komin endanleg dagsetning á Rokland eftir Martein Þórsson en samkvæmt upplýsingum Fréttablaðsins verður hún frumsýnd á þessu ári. Hún byggir á skáldsögu Hallgríms Helgasonar. Tvær íslenskar myndir eru síðan í tökum um þessar mundir: Okkar eigin Osló eftir Reyni Lyngdal og Djúpið í leikstjórn Baltasars Kormáks. Stefnt er að frumsýningu þeirra snemma á næsta ári en Djúpið er byggt á einleik eftir Jón Atla.- fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.