Viðskipti innlent

SA fagna áformum um byggingu einkasjúkrahúss

Samtök atvinnulífsins (SA) fagna áformum Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco) og Iceland Healthcare um að ráðast í umfangsmiklar endurbætur á sjúkrahúsinu að Ásbrú, í Reykjanesbæ. Á sjúkrahúsinu verða þrjár skurðstofur og 35 legurými, þar sem boðið verður upp á sérhæfðar meðferðir fyrir útlendinga.

Í frétt um málið á vefsíðu SA segir að allt að 300 störf muni skapast í tengslum við starfsemina. Gert er ráð fyrir að þjónustuþegar verði um 1.000 talsins fyrsta starfsárið en tvöfaldist síðan á næstu tveimur árum, með árlegum tekjum sem áætlaðar eru um 3,5 milljarðar króna.

Aðeins með sköpun nýrra starfa og aukinni verðmætasköpun er unnt að útrýma atvinnuleysi og tryggja störf fyrir þá sem koma út á vinnumarkaðinn á næstu árum. Meginleiðin til að ná aftur fyrri styrk er að fjárfesta í atvinnulífinu, auka útflutning á vörum og þjónustu, og því eru ofangreind áform verulega jákvæð. Jafnframt er ljóst að Íslendingar standa frammi fyrir fjölmörgum áskorunum í heilbrigðismálum og leita verður allra leiða til hagræðingar og bæta nýtingu fjármuna.

Í nýju riti SA Atvinna fyrir alla - aðgerðaáætlun 2010 um uppbyggingu atvinnulífsins er að finna stefnumörkun Samtaka atvinnulífsins í heilbrigðismálum. Þar kemur m.a. fram að hlutur einkaaðila í veitingu heilbrigðisþjónustu á Íslandi er of lítill en SA leggja áherslu á að unnið verði út frá ábendingum OECD um heilbrigðismál á Íslandi.

Hér á landi er þjónusta í of miklum mæli veitt af dýrum þjónustuaðilum á óþarflega háu tækni- og þjónustustigi, kostnaðarþátttöku er ekki beitt nægilega markvisst og ekki er nægileg samkeppni á milli þjónustuaðila. OECD telur kostnað í íslenska heilbrigðiskerfinu geta lækkað um 1,5% af landsframleiðslu án þess að dregið sé úr þjónustu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×