Lífið

Framsóknarmaður safnar framboðsaur í sjósundi

Einar Skúlason, oddviti Framsóknarflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum, er vígalegur í sjósundgallanum.
Einar Skúlason, oddviti Framsóknarflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum, er vígalegur í sjósundgallanum. Fréttablaðið/Stefán

„Reyndari sjósundskappar sem ég hef rætt við eru ekkert sérstaklega bjartsýnir fyrir mína hönd og eru ekkert vissir um að mér muni takast þetta," segir Einar Skúlason, oddviti Framsóknarflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum. Hann fer óvenjulega leið til að safna fjárframlögum fyrir framboðið því hann hyggst synda yfir Fossvoginn, alls sex hundruð metra, og safna um leið peningum sem nota á í auglýsingar fyrir flokkinn í kosningabaráttunni.

Einar viðurkennir að þetta sé kannski fáránleg hugmynd en hann vilji ekki vera að hringja í fyrirtæki og safna aur. „Þetta er svolítið 2010 og í stað þess að hringja í fyrirtæki ákvað ég að gera eitthvað afgerandi," útskýrir Einar sem hefur stundað sjósund frá því 2008.

 Einar tók smásprett í hádeginu í gær en þá var sjórinn aðeins 0,6 gráðu heitur. Frambjóðandinn vonast til að hann muni hlýna eitthvað næstu tvær vikurnar en hann hyggst stinga sér til sunds 23. apríl. „Þetta er alvöru áskorun og hlutfallslega er þetta erfiðara en að ganga á Hvannadalshnúk," segir Einar sem er sjálfur ekkert viss um hvort honum takist ætlunarverkið. Þeir sem vilja leggja Einari lið geta heitið á hann á vef­síðunni einarskula.com. - fgg






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.