Erlent

Myndband af Eþíópíu vélinni springa á flugi

Óli Tynes skrifar

Níutíu manns fórust með Boeing 737 þotu Ethiopian Airlines. Mikið þrumuveður og rigning var í Beirut þegar vélin hóf sig til flugs og hafa verið vangaveltur um að það hafi verið orsök slyssins.

Á myndbandi úr öryggismyndavél má hinsvegar sjá úr fjarska þegar vélin hefur sig til flugs. Hún er aðeins smá-díll á myrkum himninum en sjá má frá henni tvo ljósglampa með stuttu millibili.

Andartaki síðar fer vélin útfyrir ramma myndavélarinnar og rétt í því sést stór og mikill blossi á himni.

Sagt er að þetta sé frá því að vélin sprakk í loft upp. Þetta stemmir við lýsingar sjónarvotta sem segjast hafa séð vélina steypast logandi í hafið skammt frá ströndinni.

Þetta stemmir einnig við fullyrðingar líbanska hersins sem segir að eldur hafi kviknað í vélinni rétt eftir flugtak.

Það hefur nú verið upplýst að rétt eftir flugtak fór vélin af þeirri stefnu sem flugumferðarstjórnin hafði gefið henni.

Flugumferðarstjóri bað um að hún sneri aftur á þá stefnu en rétt á eftir varð mjög snögg og undarleg stefnubreyting og svo hvarf vélin af ratsjá og allt samband rofnaði.

Þetta virðist allt hafa gerst svo snöggt að flugmennirnir hafi ekki haft tíma til þess að láta vita að eitthvað væri að.

Þetta gæti stemmt við að litlu ljósglamparnir tveir hafi verið litlar sprengingar sem leiddu til þess að vélin fór af réttri leið. Svo hafi orðið mikil sprenging og hún hrapað í hafið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×