Björk Guðmundsdóttir syngur dúett í einu lagi á væntanlegri plötu Ólafar Arnalds. Lagið verður eitt þriggja sem er sungið á ensku á plötunni, hin eru á íslensku. Líkt og á fyrstu plötu Ólafar, Við og við sem kom út 2007, vann Kjartan Sveinsson (í Sigur Rós) plötuna með henni. Platan er tilbúin og heitir Innundir skinni, en ekki er frágengið hvenær hún kemur út. Það gæti verið í vor eða í október. Útgefandinn, hið gamalgróna fyrirtæki Sykurmolanna og Bjarkar, One Little Indian, gefur plötuna út. OLI gaf Við og við út í Bandaríkjunum í janúar.
Þetta er fyrsti dúett Bjarkar á plötu með íslenskum listamanni síðan hún söng „Ó borg mín borg“ með KK í myndinni Sódóma Reykjavík. Hún og Ólöf eru góðir kunningjar. Í seinni tíð hefur Björk meðal annars sungið dúetta með Anthony Hegarty og Thom Yorke. Björk hefur verið að kíkja á efni á nýja plötu í hljóðverum vestanhafs, en þó er ólíklegt að ný plata með henni líti dagsins ljós á þessu ári.
Ólöf er nú á fullu við að kynna sig og tónlist sína. Hún spilaði á dögunum á SXSW-hátíðinni í Austin og fékk mikla athygli. Viðtal við Ólöfu má nú sjá á forsíðu NPR (National Public Radio) útvarpsstöðvarinnar í Bandaríkjunum. Þar er Ísland kynnt, eins og venjan er þegar íslenskir popparar fara í viðtöl erlendis. Mest púður fer þó vitaskuld í að lýsa söng Ólafar. Hann er sagður framandi og dillandi og tónlistin er sögð tímalaus og áhrifamikil. Ólöf kemur næst fram á Íslandi á Aldrei fór ég suður á Ísafirði um páskana.
- drg