Erlent

Hneykslisdómarinn fær lífverði

Óli Tynes skrifar
Wayne Rooney sýnir Horgei Larrionda hversu langt boltinn fór inn í Þýska markið.
Wayne Rooney sýnir Horgei Larrionda hversu langt boltinn fór inn í Þýska markið. Mynd/AP

Dómarinn sem dæmdi leik Bretlands og Þýskalands í Suður-Afríku er svo hataður að yfirvöld hafa látið hann hafa lífverði úr víkingasveit lögreglunnar.

Horgei Larrionda frá Úrúgvæ dæmdi ekki mark þegar Frank Lampart átti skot í þverslá og inn í þýska markið á 39. mínútu.

Bretar segja að Larrionda hafi verið eini maðurinn á vellinum sem ekki sá að þetta var mark.

Bretar fóru því með eitt mark gegn tveimur inn í síðari hálfleik í stað þess að hafa jafnað. Þjóðverjar héldu þá áfram leiftursóknum sínum og slegnir bretarnir áttu engin svör við þeim.

Larrionda er nú kallaður hneykslisdómarinn og tilfinningarótið er svo mikið að ekki þótti annað fært en útvega honum lífverði.

Aðstoðardómararnir tveir eru einnig undir lögregluvernd. Breskir fjölmiðlar hafa auðvitað atast í dómaranum eins og naut í flagi.

Daily Mail skýrir frá því að árið 2002 hafi Larrionda verði dæmdur í hálfs árs bann eftir kærur frá öðrum dómurum. Aldrei var skýrt frá því hvers vegna það var gert en sögusagnir um spillingu komust á kreik.

Daily Mail segir einnig að árið 2004 hafi Larrionda ekki dæmt augljós mark brasilíumanna í útslitaleik við Chile. Leiknum lauk með jafntefli í það skipti og engir eftirmálar urðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×