Erlent

Áfengisdrykkja danskra unglingsstúlkna veldur áhyggjum

Áfengisdrykkja unglingsstúlkna í Danmörku veldur heilbrigðisyfirvöldum þar í landi verulegum áhyggjum.

Rannsóknir sína að unglingsstúlkur á aldrinum 11 til 15 ára drekka oftar og meira en strákar á sama aldri. Um 62% stráka hafa drukkið áfengi á síðustu fjórum vikum en hlutfallið er 74% hjá stúlkunum.

Þar að auki drekka stúlkurnar mun meira magn af áfengi í einu en strákarnir. Næstum tvær af hverjum þremur 15 ára gömlum dönskum stúlkum segja að þær hafi nýlega drukkið fleiri en fimm einfalda í einu en þetta á aðeins við um helming strákanna.

Fjallað er um málið í Jyllands Posten en þar segir að frá árinu 2002 hafi stöðugt dregið úr drykkju unglinga í Danmörku en nýjar upplýsingar frá heilbrigðisráðuneytinu sýni að sú þróun hafi nú snúst til verri vegar.

Rætt er við Annemarie Knigge forvarnarstjóra ráðuneytisins sem segir að ráðuneytið sé nú að fara í saumana á forvarnarvinnu sinni í ljósi þessara upplýsinga. Samtímis sé ætlunin að herða á þeim skilaboðum til foreldra að börn undir 16 ára aldri og áfengi fara ekki saman.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×