Viðskipti innlent

Fá skattahandvömm bankanna í bakið

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Bankarnir létu hjá líða að greiða skatta af afleiðuviðskiptum viðskiptavina sinna og nú eru viðskiptavinirnir að fá það í bakið. Þeir þúsund einstaklingar sem fá bréf frá skattrannsóknarstjóra vegna vantaldra skatttekna geta hins vegar borið ákvörðun um skattfjárhæð undir yfirskattanefnd og lögmæti skattskyldunnar undir dómstóla.

Skattur var ekki greiddur af afleiðuviðskiptum bankanna upp á hundruð milljarða áður en bankarnir hrundu samkvæmt rannsókn á vegum skattrannsóknarstjóra, eins og við greindum frá í síðustu viku.

Forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, sagði á blaðamannafundi um málið í gær í gær að inni í bönkunum hafi í raun verið um að ræða "svart skattkerfi," eins og hún orðaði það og fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Lögum samkvæmt er farið með staðgreiðslu af afleiðuviðskiptum viðskiptavina fjármálafyrirtækja eins og vaxtatekjur. Þetta virkar þannig að ef viðskiptavinur hagnast á afleiðuviðskiptum þá ber bankanum sem annast viðskiptin að halda eftir staðgreiðslu af þeim og greiða til skattyfirvalda, að sögn Elínar Árnadóttur, yfirmanns skatta- og lögfræðisviðs PricewaterhouseCoopers.

Að hennar sögn áttu einstaklingar að greiða tíu prósent tekjuskatt af þeim, en átján prósent eins og lögin eru í dag. Bönkunum hafi því borið skylda að halda þessari staðgreiðslu til haga, að sögn Elínar. Hafi bankarnir ekki haldið eftir þessari staðgreiðslu hafi einstaklingunum hins vegar borið að sjá til þess að skatturinn yrði greiddur.

Yfir þúsund einstaklingar munu á næstu vikum frá bréf frá skattrannsóknarstjóra vegna afleiðuviðskiptanna. Greint var frá því í gær að í nánast engu tilviki hefðu bankarnir haldið eftir skatti vegna þessarar tegundar af viðskiptum. Með öðrum orðum, svo virðist sem verið sé að endurákvarða skatta á einstaklinga upp á tugi milljarða þar sem bankarnir létu hjá líða að halda eftir skattskyldum hagnaði.

Elín segir að í mörgum tilvikum séu afleiðuviðskiptin flókin og fólk hafi í einhverjum tilvikum verið í vandræðum um hvernig eigi að gera upp tekjur af þeim. Hún segir að þær upphæðir sem skattrannsóknarstjóri telji að ekki hafi verið taldar fram hafi komið sér mjög á óvart.

Þessir einstaklingar sem munu fá bréf frá skattrannsóknarstjóra geta borið ágreining um skattfjárhæðina, þ.e endurálagninguna, undir yfirskattanefnd. Hins vegar geta þeir alltaf borið ágreining um skattskylduna sem slíka undir dómstóla.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×