Erlent

Neandertalsmenn voru vænstu skinn

Óli Tynes skrifar
Neandertalsmenn lögðu látna til hvíldar með nokkru tilstandi.
Neandertalsmenn lögðu látna til hvíldar með nokkru tilstandi.

Nýjar rannsóknir benda til þess að Neandertalsmenn hafi ekki verið þeir nautheimsku ruddar sem hingaðtil hefur verið talið.

Vísindamennirnir komust að því að hópar Neandertalsmanna sem bjuggu í Evrópu fyrir 500 þúsund til 40 þúsund árum hjúkruðu veikum og særðum og jarðsettu ástvini sem þeir virðast hafa syrgt.

Það voru vísindamenn við háskólann í York í Bretlandi sem gerðu rannsóknina. Þeir fundu meðal annars jarðneskar leifar barns sem var heilabilað. Það hafði ekki verið yfirgefið eða borið út heldur séð um það til sex ára aldurs þegar það lést.

Þeir fundu einnig bein af fullorðnum manni sem var með visinn handlegg, vanskapaða fætur og blindur á öðru auga. Um hann hafði verið hugsað í eina tvo áratugi.

Vísindamennirnir fundu nokkrar grafir og ljóst að þar hafði fólk verið lagt til hinstu hvíldar með nokkru tilstandi sem gefur til kynna sorg og væntumþykju.

Allt þykir þetta benda til þess að Neandertalsmenn hafi verið tilfinningaríkari en þeim hefur verið ætlað.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×