Viðskipti innlent

Landic Property heitir Reitir

Viðar Þorkelsson Viðar Þorkelsson er forstjóri Reita. Félagið hét áður Landic Property Ísland og þar áður Fasteignafélagið Stoðir. Mynd/Reitir
Viðar Þorkelsson Viðar Þorkelsson er forstjóri Reita. Félagið hét áður Landic Property Ísland og þar áður Fasteignafélagið Stoðir. Mynd/Reitir

Skipt hefur verið um nafn á fasteignafélaginu Landic Property Ísland. Það heitir nú Reitir fasteignafélag.

„Síðastliðið ár unnu stjórnendur móðurfélagsins Landic Property hf., í samvinnu við kröfuhafa, að því að verja íslenska starfsemi félagsins og losa um erlendar eignir og veðskuldir en í því ferli hefur meðal annars verið gengið frá sölu á eignasöfnum félagsins í Danmörku og Finnlandi,“ segir í tilkynningu félagsins. „Rekstur íslenska fasteignasafnsins er nú tryggður og stendur traustum fótum.“

Vegna þess að félagið starfar eftirleiðis einvörðungu á innlendum markaði var ákveðið að taka upp íslenskt nafn. „Reitir verða sjálfstætt félag í meirihlutaeigu íslenskra banka. Stjórnendur Landic Property hf. sömdu við NBI (Landsbankann), Arion Banka, Íslandsbanka, Glitni, Haf Funding og Byr um fjárhagslega endurskipulagningu íslenska fasteignafélagsins og dótturfélaga.“ Fasteignasafn Reita samanstendur af 130 fasteignum, einkum verslunar- og skrifstofuhúsnæði miðsvæðis í Reykjavík. Félagið er sagt stærsta þjónustufyrirtæki landsins á sviði fasteignareksturs, en meðal eigna þess eru Kringlan og Hilton Reykjavík Nordica, Kauphallarhúsið, Holtagarðar og „margar af perlum íslenskrar byggingarsögu sem staðsettar eru í miðbænum“. Eignir félagsins eru sagðar yfir 90 milljarða króna virði. - óká






Fleiri fréttir

Sjá meira


×