Handbolti

Guðjón Valur: Það var fínt á bekknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Vín skrifar
Guðjón Valur á ferðinni í dag.
Guðjón Valur á ferðinni í dag. Mynd/DIENER

Guðjón Valur Sigurðsson tók að sér nýtt hlutverk í dag. Hann sat á bekknum síðustu 35 mínútur leiksins en hann spilar venjulega hverja einustu mínútu í leikjum Íslands.

„Það var bara fínt á bekknum,“ sagði Guðjón Valur í léttum tón. „Það hefur svo sem aldrei verið neitt markmið hjá mér að spila allar mínútur. Ég reyni bara að spila eins vel og ég get þegar ég er inn á vellinum.“

Sturla Ásgeirsson átti frábæra innkomu í íslenska liðið og skoraði fimm mörk úr fimm skotum.

„Það var frábært að sjá hvað Sturla var góður eins og í raun allir leikmenn íslenska liðsins. Það er gaman að sjá hvað liðið virkar vel.“

„Þetta var líka kannski fyrsti leikurinn sem Guðmundur leyfir sér að skipta inn á fleiri leikmönnum. Hann vildi gefa leikmönnum ákveðið öryggi þó svo að það hafi ekki allt gengið upp. En það var ánægjulegt að sjá strákana fá tækifærið.“

Eftir frábæran fyrri hálfleik gaf Ísland örlítið eftir í varnarleiknum í þeim síðari en Guðjón Valur sagði að það hefði ekki verið ætlunin.

„Við ætluðum að keyra duglega á þá og vinna seinni hálfleikinn líka. En það er erfitt þegar það er liðið langt á mótið og við með unninn leik í höndunum.“

„En þó svo að markvörðurinn þeirra, sem mér fannst þeirra besti leikmaður, hafi varið mörg skot fannst mér mjög ánægjulegt að sjá hvað við vorum duglegir að hirða fráköstin.“

„Maður þarf nefnilega oft að vinna sér inn að ná þessum fráköstum og það á líka við í vörninni. Það hefst aðeins með mikilli vinnu og baráttu.“

„Við klúðruðum þó nokkuð af færum en við fengum þó þessa seinni sénsa sem þeir fengu ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×