Innlent

Datt úr rólu og féll niður um fjóra metra

Selfoss.
Selfoss.

Kona slasaðist á Laugarvatni í síðustu viku þegar að róla sem hún var í slitnaði niður. Fallið var um fjórir metrar. Konan vankaðist við fallið og var flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítalans. Ekki liggur fyrir um meiðsl konunnar en hún mun vera óbrotin. Lögreglan rannsakar orsök slyssins og útbúnað rólunnar.

Mikið tjón varð í gróðrastöð við Bröttuhlíð í Hveragerði á laugardagsmorgun. Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu sá um vettvangsrannsókn. Tæknideild vinnur nú úr gögnum sem aflað var á brunastað. Niðurstaða á eldsupptökum liggur ekki fyrir.

Brotist var inn í verslun Europris við Austurveg á Selfossi síðastliðið miðvikudagskvöld á milli kl. 21:00 og 00:00. Þjófarnir komust inn í verslunina með því að brjóta plastglugga á þaki hússins og príla niður á gólf verslunarinnar.

Að því búnu brutu þeir sér leið inn á skrifstofu þar sem rótað var í skápum og hirslum. Þjófarnir höfðu á brott eitthvað af verkfærum og skiptimynt. Lögreglan hefur yfirheyrt nokkra menn vegna málsins en það hefur ekki borið árangur.

Ef einhver hefur orðið var við óvenjulegar mannaferðir við Europris á ofangreindu tímabili eru þeir beðnir að hafa samband við lögreglu í síma 480 1010.

Fjögur minni háttar fíkniefnamál komu upp í vikunni. Tvö þeirra tengdust Litla Hrauni. Hin tvö komu upp á Selfossi.

Lögreglumenn höfðu í gær, sunnudag, afskipti af manni sem kom út af veitingastað á Selfossi með nokkrar bjórflöskur í poka. Grunur leikur á að maðurinn hafi keypt bjórinn inni á veitingastaðnum og borið hann út, sem er óheimilt. Málið er í rannsókn.

Nokkur umferðaróhöpp urðu í síðustu viku sem rekja má til hálku og krapa á vegum. Sem dæmi má nefna að ísing myndaðist á vegum þó lofthiti mældist allt að 5° C.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×