Viðskipti innlent

Innflutningur á byggingarefnum hefur hrapað

Minnkandi umsvif byggingariðnaðarins koma glögglega í ljós þegar tölur Hagstofunnar um innflutning hinna ýmsu byggingarefna eru skoðaðar. Á síðasta ári dróst innflutningur á timbri saman um 40% frá fyrra ári og um 70% á steypustyrktarjárni fyrir sama tímabil í tonnum talið.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að þegar síðasta ár er borið saman við árið 2007 kemur í ljós að innflutningur á timbri og krossviði hefur dregist saman um 60%, innflutningur á rúðugleri hefur dregist saman um 45% á sama tímabili og þá dróst innflutningur á steypustyrktarjárni saman um 80% á síðasta ári borið saman við árið 2007.

Þessar tölur endurspegla vel hversu mikið umsvif í byggingariðnaðinum hafa dregist saman, en óhætt er að segja að byggingariðnaðurinn hefur átt sérstaklega erfitt uppdráttar í kjölfar fjármálahrunsins og þeirrar kreppu sem á eftir fylgdi, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×