Erlent

Harðir skotbardagar við talibana

Óli Tynes skrifar
Bandarískir hermenn skiptast á skotum við talibana.
Bandarískir hermenn skiptast á skotum við talibana. Mynd/AP

Um fimmtán þúsund hermenn taka þátt í árásinni í Helmand héraði í Afganistan. Fyrsta verkefnið er að hertaka bæinn Marjah sem er höfuðvígi talibana í héraðinu.

Ætlunin er þó að taka allt héraðið og er talið að það geti tekið einhverjar vikur.

Þyrlur fluttu hermenn til Marjah þar sem þeir lentu samstundis í hörðum skotbardögum við liðsmenn talibana.

Um eitthundrað þúsund manns búa í bænum og árásin var auglýst vel í von um að talibanar notuðu tækifærið til að flýja þaðan, eða að minnsta kosti gefa íbúunum kost á því.

Talibanar fóru hinsvegar hvergi og þeir komu í veg fyrir að óbreyttir íbúar gætu forðað sér. Fimm NATO hermenn hafa þegar fallið í átökunum.

Afganskur herforingi segir að tuttugu talibanar hafi verið felldir og ellefu teknir til fanga. Þá fórust tólf óbreyttir borgarar þegar bandarísk eldflaug lenti á íbúðarhúsi.

Bandaríkjamenn hafa sent Hamid Karzai forseta afsökunarbeiðni og rannsókn hefur verið fyrirskipuð á því hvað fór úrskeiðis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×