Erlent

Ísraelar klúðruðu árásinni á tyrkneska skipið

Óli Tynes skrifar
Ísraelskur hermaður liggur særður á þilfari tyrkneska skipsins. Yfir honum stendur maður með hníf. Myndin birtist í tyrkneska blaðinu Hurryet.
Ísraelskur hermaður liggur særður á þilfari tyrkneska skipsins. Yfir honum stendur maður með hníf. Myndin birtist í tyrkneska blaðinu Hurryet. Mynd/Tyrkneskt dagblað

Ísraelar klúðruðu gersamlega hertöku tyrkneska skipsins Mavi Marmara þegar þeir stöðvuðu hjálparskipalestina til Gaza strandarinnar í maí síðastliðnum.

Þetta er niðurstaða ísraelskrar rannsóknarnefndar sem Giora Eiland fyrrverandi hershöfðingi fór fyrir. Hluta skýrslunnar hefur verið lekið til fjölmiðla.

Þar kemur meðal annars fram að dagana fyrir áhlaupið héldu ísraelskir embættismenn því fram að ofbeldismenn með tengsl við hryðjuverkasamtök væru um borð í Mavi Marmara.

Engu að síður var hermönnunum sem fóru þar um borð sagt búast aðeins við lítilli mótspyrnu. Þeir voru vopnaðir litboltabyssum, en báru einnig skammbyssur í síðrum.

Myndbandsupptökur sýna að einhverjir um borð í tyrkneska skipinu réðust á ísraelsku hermennina jafnvel áður en þeir slepptu línunum sem þeir sigu í úr þyrlum sem sveimuðu yfir skipinu.

Í skýrslunni segir að þessir menn hafi verið vopnaðir bareflum og hnífum. Þeir hafi borið ísraelsku hermennina ofurliði þartil þeir gripu til skotvopna sinna.

Skýrsluhöfundar telja beitingu skotvopnanna réttlætanlega. Níu manns voru skotnir til bana.

Sjónarvottar um borð í tyrkneska skipinu hafa hinsvegar haldið því fram að ísraelar hafi byrjað strax að skjóta.

Ólíklegt er að tyrkir sætti sig við þessa skýrslu en þeir hafa krafist opinberrar rannsóknar á atburðinum.

Samkvæmt nýjustu fréttum gæti Ingibjörg Sólrún Gísladóttir veitt slíkri nefnd forstöðu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×