Erlent

Gæti bylt krabbameinsmeðferðum

Bandarískir vísindamenn hafa þróað nýtt blóðpróf sem getur sagt til um hvort krabbameins­æxli hefur myndast á nýjan leik eða hvort lyfjameðferð hefur áhrif. Prófið er talið geta bylt rannsóknum á krabbameini og meðferðum við því. Sagt er frá prófinu í breska blaðinu Times.

Með prófinu er læknum gert kleift að fylgjast náið með þróun hvers konar krabbameins í sjúklingum og miða meðferðina við það á hvaða stigi það er hverju sinni.

Prófið, sem áætlað er að geti orðið aðgengilegt víðast hvar innan fimm ára, gæti hlíft sumum sjúklingum við óþarfri lyfja- eða geislameðferð, en að sama skapi tryggt að aðrir hljóti nauðsynlega aukaaðhlynningu ef fyrstu viðbrögð granda ekki meininu. Prófið ætti einnig að geta greint örsmá afgangsæxli sem ekki sjást á hefðbundnum sneiðmyndum.

Þá væri með prófinu hægt að komast hjá miklum skurðaðgerðum, enda má með því komast að því hvort mein hefur dreift sér í eitla eða vefi sem virðast heilbrigðir og láta þá afskiptalausa ef svo er ekki.

Í ferlinu er notast við erfðatækni til að greina DNA-auðkenni krabbameinsfrumna í blóði. Slík próf eru ekki glæný af nálinni þegar fylgjast þarf með blóðkrabbameini, til dæmis hvítblæði, en hafa hins vegar ekki staðið til boða fyrir þá sem þjást af æxlum í föstu formi. Nýja blóðprófið hefur hins vegar verið prófað á fjórum sjúklingum með ristilkrabbamein og tveimur með brjóstakrabbamein. Í örfáum millilítrum af blóði fundust leifar af erfðaefni æxlisins.

Prófið kostar nú um 600 þúsund krónur, en búist er við því að sú tala lækki hratt eftir því sem tæknin sem þarf í framleiðsluna verður algengari og ódýrari.

„Þetta er mjög mikilvægt starf sem þarna hefur verið unnið og mun hafa gríðarleg áhrif á þróun einstaklingsmiðaðrar krabbameinsmeðferðar,“ segir Mike Stratton, prófessor við Sanger-stofnunina, sem sérhæfir sig í rannsóknum á krabbameini og erfðum.

Rannsóknin var kynnt á vísindaráðstefnu sem fór fram nýlega í San Diego í Bandaríkjunum og hefur vakið mikla athygli.

stigur@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×