Viðskipti innlent

Heildarútlán ÍLS stóðu í stað milli mánaða

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs (ÍLS) námu rúmum 2,1 milljörðum króna í janúar, en þar af voru ríflega 700 milljónir króna vegna almennra lána og um 1,4 milljarðar vegna annarra lána. Heildarútlán sjóðsins stóðu því nánast í stað frá fyrra mánuði en almenn útlán sjóðsins lækkuðu hins vegar um 50% frá þeim tíma.

Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu ÍLS. Þar segir að meðalútlán almennra lána voru um 7,4 milljónir króna í janúar sem er lækkun um tæplega 16% frá fyrra mánuði.

Stjórn Íbúðalánasjóðs samþykkti á fundi sínum 21. janúar að lækka breytilega vexti á leiguíbúðalánum úr 5,40% í 4,90%. Lækkunin gildir við útreikning vaxta frá og með 1. janúar 2010.

Heildarvelta íbúðabréfa nam tæpum 64 milljörðum króna í janúar samanborið við tæplega 67 milljarða króna veltu bréfanna á sama tímabili í fyrra.

Greiðslur Íbúðalánasjóðs námu tæpum 2,3 milljörðum króna í janúar og voru afborganir að mestum hluta vegna húsnæðisbréfa. Uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs í janúar námu ríflega 1,2 milljörðum króna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×