Skoðun

Sjálfstætt framkvæmdavald

Þorsteinn V Sigurðsson skrifar

Langflestir frambjóðendur til stjórnlagaþings eru sammála um það að framkvæmdavaldið þ.e. ríkisstjórnin eigi ekki að sitja á Alþingi, eigi að vera sjálfstætt. Ég hef verið að hugleiða hvernig þetta getur verið í framkvæmd því ekki er nóg að halda einhverju fram, það þarf að vera framkvæmanlegt.

Margir hafa sett það fram að eftir Alþingiskosningar og myndun ríkisstjórnar þá missi ráðherrarnir atkvæðisrétt sinn á Alþingi og þeirra varamenn komi inn og taki þeirra sæti. Ég tel að þessi aðferð, sem í sjálfu sér er alveg vel framkvæmanleg, skili mjög litlu í að gera framkvæmdavaldið sjálfstæðara því áfram væru flokkarnir sem mynda ríkistjórn með meirihluta á þingi.

Það sem ég vil hins vegar sjá er ekki bara sjálfstætt framkvæmdavald heldur einnig og ekki síður sjálfstætt löggjafarvald. Til að ná þessu fram tel ég að fara þurfi fram tvennar kosningar þ.e. annnars vegar til Alþingis og hins vegar um ríkisstjórn. Ég sé fyrir mér að kosning til ríkisstjórnar sé persónubundin þ.e. einstaklingar en ekki flokkar í framboði, allir eiga jafnan rétt til framboðs að uppfylltum skilyrðum t.d. um meðmælendafjölda.

Ég tel að með þessu fyrirkomulagi þá verði komið til móts við þá kröfu fólks að landinu stýri einstaklingar með menntun og getu til þess en ekki einstaklingar sem hafa klifið metorðastigann innan stjórnmálaflokkanna, eignast þar vini og viðhlæjendur sem koma "sínum" manni áfram til æðstu metorða í þjóðfélaginu, því miður oft á tíðum algjörlega óverðskuldað með það eina í veganestinu að vera snjall að koma fyrir sig orði, geta talað lengi án þess að segja neitt og láta aldrei reka sig á gat í viðtölum. Þetta hefur því miður alltof of oft verið reyndin með okkar annars ágætu þingmenn og ráðherra í gegnum áratugina.

Það er mín skoðun að þjóðfélagið eigi mikið af góðu og hæfu fólki sem er vel til þess fallið að vera framkvæmdastjórar (ráðherrar) yfir okkar landi, vel menntað fólk sem ekki hefur skipt sér af stjórnmálum en er ágætlega hæft til að taka raunhæfar ákvarðanir almenningi til heilla.

Löggjafarvaldið á að vera sjálfstætt, meginhlutverk þess er að setja leikreglur sem stýra þjóðfélaginu, ríkistjórnin á hverjum tíma á að þurfa að hafa fyrir því að koma lögum í gegnum þingið og þingið á að horfa á það hlutlausum augum hvaða áhrif lagasetning hefur á þjóðfélagið en ekki með sínum flokksaugum eins og nú hefur viðgengist.






Skoðun

Sjá meira


×