Skoðun

Höfum við efni á að eiga börn?

Alda Agnes Sveinsdóttir skrifar

Síðustu ár hafa auknar kröfur komið frá atvinnurekendum og foreldrum um að leikskólinn taki við börnunum þegar fæðingarorlofi lýkur. Atvinnurekendur þurfa vinnuafl og flestum foreldrum finnst leikskólavist æskilegri, ef hún stendur til boða, en dagmóðir og vegur þar mikið að mun ódýrara er að hafa barn á leikskóla.

Á þensluárunum nýliðnum kappkostuðu sveitarfélög í samkeppni sinni um íbúa að bjóða yngri og yngri börnum vistun á leikskólum. Ýmislegt fór af stað í rekstri leikskólanna sem vissulega kostaði fé eins og til dæmis að bjóða upp á ungbarnadeildir og ókeypis nokkra klukkutíma fyrir elstu börnin en það sem ekki var gert var að hækka laun starfsmanna leikskólanna.

Á þensluárunum var mannekla og tíð starfsmannaskipti viðloðandi vandamál á mörgum leikskólum sem olli miklu álagi í leikskólasamfélaginu. Vissulega hefur orðið breyting á starfsmannamálum eftir hrun en það er staðreynd að starfsfólk leikskólanna sem er á lægstu laununum er ekki að fá mikið meira í laun en lágmarks atvinnuleysisbætur gefa. Ekki eru nógu margir menntaðir leikskólakennarar sem fást til starfa í leikskólana og eru lág laun meðal þess sem talin er ástæða þess.

En hvað viljum við fyrir börnin? Er rétt að þarfir atvinnulífsins, samkeppni sveitarfélaga og atvinnuþátttaka foreldra og starfsþróun stýri því hvar og hvenær börn eru látin í umönnun annarra en foreldra? Eiga þættir eins og hvernig þroskast börnin best, hvað veitir þeim besta veganestið út í lífið og hvernig nám viljum við fyrir börnin okkar ekki að hafa meira vægi þegar umsjón með ungu barni er ákveðið?

Fæðingarorlof á Íslandi í dag er 6-9 mánuðir og margir hafa ekki aðra kosti en setja barnið í dagvistunar þegar því líkur. Margir lengja fæðingarorlofið og fá skertar fæðingarorlofsgreiðslur sem því nemur en flestir þurfa að setja börnin í umsjón annarra og fara út á vinnumarkaðinn löngu áður en barn er orðið 18 mánaða.

Allavega hugmyndir eru í gangi um þarfir ungbarna og hvað sé þeim fyrir bestu. Ýmsar rannsóknir sýna fram á að ungum börnum er best borgið í umsjón foreldra sinna og að einstaklingsumönnun sé því mikilvægust fyrstu árin. Aftur á móti telja sumir foreldrar sem eiga barn á fyrsta ári að þegar barnið er orðið sex, sjö mánaða sé það orðið verulega þreytt á að vera heima hjá foreldum sínum og nauðsynlegt fyrir það að komast á leikskóla og leika við önnur börn.

Dagvistunarúrræði kosta peninga en hvað, hvers vegna og hverjir eiga að borga? Fyrir leikskólavist borga foreldrar ákveðna upphæð en sú upphæð er langt frá raunverulegum kostnaði við dvöl barnsins. Ekki eru allir sem gera sér grein fyrir því að leikskólapláss er dýrara eftir því sem barnið er yngra. Á ungbarnadeildum þarf til dæmis að gera ráð fyrir meira gólfrými fyrir hvert barn þar sem gólfleikur er þeim mikilvægur, önnur svæði á leikskólum nýtast þeim minna en börnum sem eldri eru og útivera nýtist ekki alveg eins vel.

Einnig eru smærri hópar nauðsynlegir á meðan börnin eru mjög ung bæði til að minnka áreiti á þau og smithættu og hver starfsmaður hefur færri börn á sinni könnu eftir því sem þau eru yngri þar sem þau þarfnast mun fjölþættari einstaklingssamskipta. Laun starfsmanna á leikskólum er aðalkostnaður við leikskólapláss og eftir því sem fagmenn, sem eru jafnan á hærri launum, eru fleiri því dýrara er leikskólaplássið. Laun leikskólakennara eru samt sem áður ekki há, sérlega ekki miðað við lengd menntunar þeirra.

Laun stjórnenda á leikskólum eru hlutfallslega há miðað við aðrar stöður í leikskólum og eftir því sem stjórnendastöðum fækkar þá lækkar launakostnaður. Stjórnendur á leikskólum gegna lykilhlutverki í faglegu starfi leikskólanna og þeir mynda öryggisnet utan um nemendur, foreldra og starfsfólk. Námsgögn kosta einnig sitt og þarfnast endurnýjunar með reglulegu millibili og fylgja þarf nýjungum. Sem sagt því fleiri börn á hvern fermetra, því færri fagmenn, því færri stjórnendur og því fátæklegri kennslugögn þeim mun kostnaðarminna er hvert leikskólapláss.

Nú á tímum niðurskurðar og lítils fjármagns hjá sveitarfélögum er meðal annars verið að leita allra leiða til að lækka kostnað við rekstur leikskóla og færa meiri kostnað yfir á foreldra. Það er nú sem aldrei fyrr nauðsynlegt fyrir alla sem hyggja á barneignir að velta meðal annars eftirfarandi fyrir sér: Hvað viljum við fyrir börnin okkar? Hversu langt á fæðingarorlof að vera og hver á að borga fæðingarorlofið? Hvað tekur við þegar því lýkur? Hversu mikið erum við tilbúin að borga fyrir dagvistunarúrræði? Hver á að borga fyrir það ? Hvað er ásættanlegt að við göngum langt í að gera leikskólapláss ódýrt?










Skoðun

Sjá meira


×